Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 14. maí 2021
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994 (rafrænir húsfundir og fjölbreytt húsnæði). Þingskjal 1270-748. mál.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) bendir á að ítrekuð vandræði hafa hlotist af því að undanförnu að bílastæði hreyfihamlaðra í bílastæðakjöllurum nýrra fjölbýlishúsa hafa verið þinglýst á ákveðnar íbúðir. Engar kvaðir hafa verið um það í eignaskiptasamningum að íbúðirnar verði að selja hreyfihömluðu fólki og við það hefur komið upp sú staða að hreyfihamlaðir íbúar fjölbýlishúsana hafa setið uppi með almenn stæði sem þeir geta ekki notað, en ófatlaðir íbúar hafa fengið stæði hreyfihamlaðra.
Samkvæmt lögum er eingöngu handhöfum stæðiskorta hreyfihamlaðra heimil afnot af bílastæðum hreyfihamlaðra. Gjaldið fyrir að stöðva eða leggja í bílastæði hreyfihamlaðra án þess að gildu stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða sé framvísað er 20.000,- krónur.
Breyta þarf lögum um fjöleignahús til að koma í veg fyrir að þessi staða komi upp. Annað hvort með því að bílastæði í kjöllurum skuli vera óskipt og hluti af sameign eða að þeim fylgi kvöð í eignaskiptasamningum um að ófatlaður eigandi íbúðar verði að láta hreyfihömluðum íbúa annarar íbúðar eftir bílastæði hreyfihamlaðra sé því þinglýst á íbúð hans. Fordæmi er fyrir slíku.
Undirritaður óskar eftir því að koma fyrir velferðarnefnd til umræðu um ofangreint vandamál.
Ekkert um okkur án okkar.
Með vinsemd og virðingu,
verkefnastjóri