Aukagjöld, sem er í rauninni falin skattheimta, fela ekki í sér að hagsmunir sjúratryggðra séu hafðir að leiðarljósi.
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (greiðsluþátttaka sjúkratryggðra).
ÖBÍ – réttindasamtök taka heilshugar undir nauðsyn þess að ráðist verði í aðgerðir til að tryggja að samningar náist á milli Sjúkratrygginga Íslands, sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Breyting á lögum er ein leið til að leysa vandann.
ÖBÍ – réttindasamtök vita til þess að fatlað fólk neitar sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sökum óhóflegs aukakostnaðar. Það er ólíðandi ástand sem þarf að bregðast við og það strax.
Brýnt er að réttur til heilbrigðisþjónustu sé tryggður og sé aðgengilegur öllum óháð stöðu, tekjum og búsetu.
Í 4. gr. reglugerðar nr. 510/2020 um samninga um heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur er fjallað sérstaklega um forsendur samninga um heilbrigðisþjónustu og jafnframt segir í ákvæðinu að við samningsgerð skuli hafa hagsmuni sjúkratryggðra að leiðarljósi. Aukagjöld, sem er í rauninni falin skattheimta, fela ekki í sér að hagsmunir sjúratryggðra séu hafðir að leiðarljósi. Þvert á móti er verið að brjóta á grunn mannréttindum fatlaðs fólks. Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunn mannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleika fólks til að njóta annarra mannréttinda.
Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður og að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé tryggt. Má þar nefna Stjórnarskrá Íslands lög nr. 33/1944, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu, alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningurinn um réttindi barnsins.
25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fjallar um heilbrigði.
Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ
Sjúkratryggingar (greiðsluþátttaka sjúkratryggðra). 679. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 14. mars 2023