Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Réttindi sjúklinga (takmörk á beitingu nauðungar)

By 15. febrúar 2023apríl 12th, 2023No Comments

„ÖBÍ – réttindasamtök hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga“

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (takmörk á beitingu nauðungar).

Í frumvarpinu sem hér er til umsagnar er lagt til að úrskurðaraðili, vegna ákvörðunar um að víkja frá banni við beitingu nauðungar, verði úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt f. lið 27. gr. frumvarpsins er ákvörðun um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.

ÖBÍ – réttindasamtök hafa áður gert athugasemdir við að úrskurðarnefnd velferðarmála verði falið úrskurðarvald um lögmæti nauðungar og/eða banni við fjarvöktun. Talsverðrar sérþekkingar er krafist þegar kemur að ákvörðunum um jafn íþyngjandi inngrip sem nauðung og frelsissvipting er og því mikilvægt að hlutlausir og óháðir aðilar úrskurði um lögmæti nauðungar.

ÖBÍ – réttindasamtök hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga, vera opinber talsmaður þeirra og sinna eftirliti með heilbrigðisþjónustu með tilliti til réttinda sjúklinga og fatlaðs fólks. Hlutverk embættisins væri meðal annars að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála. Grundvallarmarkmið í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), er viðurkenning á rétti fatlaðs fólks til að njóta sömu mannréttinda og aðrir samfélagsþegnar og skyldu aðildarríkjanna til að tryggja þau. Embætti umboðsmanns sjúklinga væri mikilvægur liður í innleiðingu og lögfestingu SRFF.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingafyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Mál nr. 18/2023. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 14. febrúar 2023.