Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Mál nr. 141-2021 Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða

By 21. september 2021september 1st, 2022No Comments
Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6

105 Reykjavík

Reykjavík, 10. september 2021

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Öryrkjabandalag Íslands fagnar því að heilbrigðisráðuneytið leggi fram stefnu í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. ÖBÍ hvetur til þess að samskonar vinna verði unnin fyrir fatlað fólk.Í þessari vinnu er mikilvægt að halda því til haga að margir aldraðir eru einnig fatlaðir en svo virðist sem gleymst hafi að gera ráð fyrir því að miklu leyti í þessari vinnu og því vill ÖBÍ benda á nokkur atriði sem betur megi fara.

ÖBÍ tekur undir þau sterku sjónarmið sem koma fram í drögunum að nauðsynlegt sé að horfa heildrænt á öll stig þjónustunnar. Þau rök sem tiltekin eru eiga nærri öll einnig við um þörf fatlaðra einstaklinga fyrir því að flækjustig þjónustunnar verði einfaldað og gert mannlegra. Mikil þörf er á að draga úr óskýrleika í verkefnum og ábyrgð ríkis og sveitafélaga og samþætta þjónustuna til að fá heildarsýn yfir þörf einstaklinganna fyrir margskonar þjónustu. Einnig er nauðsynlegt að taka það fram að mikilvægt er að einstaklingurinn hafi um það að segja hverskonar þjónustu hann þarfnast. Nauðsynlegt er að leggjast í samskonar vinnu er varðar stefnu í heilbrigðis og félagsþjónustu fyrir fatlað fólk.

Hjálpartæki

Í drögunum er komið inn á að þörf sé á endurskoðun á lögum, reglum og skilgreiningum á hjálpartækjum. ÖBÍ tekur heilshugar undir það og vísar einnig í tillögu að breytingu á skilgreiningu hjálpartækja sem málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál sendi Heilbrigðisráðuneytinu þann 12. maí 2020 og má nálgast á vef ÖBÍ. Þar er lögð fram tillaga að breytingu á skilgreiningu á hjálpartækjum:

Hjálpartæki er tæki, búnaður eða annað sem er, eitt og sér eða með öðru, til þess fallið að aðstoða fatlað fólk til að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra að því er varðar nám, atvinnu, þjálfun, meðferð, íþróttir, tómstundir, frístundir, afþreyingu, menningarlíf, heimilis- og fjölskyldulíf eða önnur svið daglegs lífs, svo sem til inntöku lyfja og næringar. Hjálpartæki er meðal annars ætlað að auka eða viðhalda færni, auðvelda umönnun, auka lífsgæði og mannlega reisn eða stuðla að því með öðrum hætti að fatlað fólk geti notið réttinda sinna samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

Það má benda á það í þessu samhengi að þegar einstaklingur flytur á hjúkrunarheimili verða hjálpartækin eign hjúkrunarheimilisins og einstaklingar sem þar búa hafa ekki fullt ákvörðunarvald um notkun þeirra og er jafnvel neitað að taka þau með út úr húsi þrátt fyrir fyrir að nauðsynlegt sé fyrir einstaklinginn að nota hjálpartækið við daglegt líf. Í lögum nr. 38/2018 kemur skýrt fram að fatlað fólk eigi rétt á bestu þjónustu sem unnt er að veita til að koma til móts við þarfir þess. Einnig segir að þjónustan skuli fela í sér nauðsynlegan stuðning svo fatlað fólk geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Lög nr. 38/2018 kveða á um að farið skuli eftir ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd þeirra. Samningurinn segir að fötluðu fólki skuli tryggð mannleg reisn, sjálfræði og sjálfstæði. Þá kveða lögin á um að fötluðu fólki skuli standa til boða þjónusta sem er nauðsynleg til þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar og komið sé í veg fyrir félagslega einangrun þess. Í þessu felst meðal annars réttur til: sjálfstæðs heimilishalds; samfélagslegrar þátttöku; menntunar og atvinnu; félagslífs, tómstunda- og menningarlífs og fjölskyldulífs. Þannig veita lög nr. 38/2018 fötluðu fólki tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi og taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Ungt fatlað fólk á hjúkrunarheimilum

ÖBÍ lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur á stofnanavistun fatlaðs fólks undir 67 ára á aldri með tilkomu heimildar í 13. grein laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Fötluðu fólki sem ekki hefur náð 67 ára aldri hefur fjölgað mjög á hjúkrunarheimilum frá því heimild var sett í lögin og var fjöldi þeirra um áramót rétt um 150 einstaklingar. Við innlögn á hjúkrunarheimili og aðrar sjúkrastofnanir má gera ráð fyrir því að sjálfstæði, mannréttindum og lífsgæðum einstaklings sé fórnað. Í nýlegu áliti Umboðsmanns Alþingis (nr. 9897/2018) er að finna gott dæmi um þetta. Þar er staðfest að stjórnvöld hafi ekki virt sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs einstaklings og að dvöl á hjúkrunarheimili geti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður Öryrkjabandalags Íslands

Valdís Ösp Árnadóttir
verkefnastjóri ÖBÍ