Stjórn Öryrkjabandalags Íslands samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 22. nóvember, að taka undir kröfur um nýja stjórnarskrá.
Stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs kveður á um mannréttindi og sérlega vernd fyrir fatlað fólk og öryrkja, en í aðfararorðum frumvarps til stjórnskipunarlaga, sem nú liggur fyrir Alþingi segir m.a.: Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Í 8. grein frumvarpsins segir jafnframt að allir hafi rétt til að lifa með reisn, og margbreytileiki mannlífsins skuli virtur í hvívetna.
Þannig kveður ný stjórnarskrá á um réttlátara og betra samfélag.
Þess vegna er ný stjórnarskrá skýr vilji þjóðarinnar og þess vegna hvetur Öryrkjabandalag Íslands alla til að mæta á Austurvöll á morgun, laugardag kl. 14 og sýna stjórnvöldum fram á með skýrum hætti, hver vilji þjóðarinnar er.