Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kíkti í hvatningarkaffi til ÖBÍ réttindasamtaka auk fulltrúa frá ráðuneytinu og hagsmunasamtökum í tilefni af samþykkt hækkunar frítekjumarks örorku- og endurhæfingarlífeyristaka vegna atvinnutekna úr tæpum 110.000 krónum og í 200.000 krónur á mánuði, eða 2,4 milljónir á ári. Langþráðum áfanga og miklu réttlætismáli var þar með náð. Ráðherra þakkaði viðstöddum fyrir samstarfið og lýsti vilja sínum til frekara samráðs í málaflokknum.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, hélt stutta ræðu þar sem hún sagði þetta mikla breytingu fyrir það fólk sem hefur horft á eftir stórum hluta tekna sinna í skerðinar. Hún hvatti ráðherra til áframhaldandi og öflugrar vinnu í málaflokknum.
Ávarpið Þuríðar heild sinni má lesa hér að neðan:
„Ráðherra og aðrir gestir, verið hjartanlega velkomin. Tilefnið er eins og þið vitið að fagna samþykkt Alþingis á frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra sem felur í sér hækkun frítekjumarks atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega úr 110 þúsund krónum í 200 þúsund frá 1. janúar 2023. Við erum að vonum ánægð með að þessum langþráða áfanga er náð, sem hefur tekið 14 ár að fá breytingu á.
Þessi breyting er mikil fyrir það fólk sem hefur horft á eftir stórum hluta þeirra tekna sem það hefur aflað í skerðingar. Hækkunin gerir það líka að verkum að það fólk sem hefur möguleika á að vinna hlutastarf mun sækjast eftir því af því að nú nýtur það ágóðans. Um leið og ég færi Mumma, félags-og vinnumarkaðsráðherra, kærar þakkir fyrir þennan mikilvæga áfanga, sem er stórt atriði hvað varðar heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, hvet ég til áframhaldandi og öflugrar vinnu og niðurstaðna til úrbóta í málaflokki fatlaðs fólks. Ykkur fulltrúum samtaka fatlaðs fólks þakka ég öfluga baráttu og frábær verkefni sem unnið er að. Fulltrúum ASÍ og SA þakka ég fyrir sína aðkomu og hvet til áframhaldandi samstarfs
Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson talaði um mikilvægi vonarinnar á útskrift Hringsjár starfs- og námsráðgjafar í gær, og ég tek undir það að án vonarinnar værum við ekki hér, því það er vonin um að árangur náist sem rekur oft á tíðum baráttu fatlaðs fólks fyrir bættu samfélagi áfram. Samfélagi sem gerir ráð fyrir okkur öllum!
Ég trúi að framtíðin færi okkur mörg góð tækifæri til að fagna og það er okkar allra sem hér stöndum og sitjum -að sjá til þess!“