Skip to main content
Frétt

VG svarar spurningum ÖBÍ

By 17. október 2016No Comments

Allir flokkar sem bjóða fram í Alþingiskosningunum 29. október næstkomandi fengu spurningalista senda á dögunum frá ÖBÍ sem inniheldur spurningar um stefnu flokkanna. Þær eru til viðbótar því sem spurt var um á opnum fundi ÖBÍ með frambjóðendum 8. október síðastliðinn. Spurt var nánar um heilbrigðismál, aðgengi og kjaramál. VG er fyrsta framboðið sem sent hefur svör við þessum spurningum ÖBÍ.

Viðbótarspurningar frá málefnahópum ÖBÍ:

Kjaramál

Spurning 1:

Barnlaus einstaklingur þarf að minnsta kosti 390.250 kr. á mánuði fyrir skatt, m.v. framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara að viðbættum húsnæðiskostnaði, sbr. tafla 1. Viðmið þetta er ætlað til styttri tíma heldur en viðmið ýmissa annarra t.d. dæmigerð viðmið velferðarráðuneytisins. Örorkulífeyrisþega sem fær óskertan lífeyri almanna- trygginga vantar 177.214 fyrir skatt á mánuði til að ná þessu viðmiði. Ætlar þitt framboð að hækka örorkulífeyri almannatrygginga þannig að örorkulífeyris- þegar verði ekki með lægri tekjur en 390.250 kr. krónur á mánuði í janúar 2017? Ef já, hvernig yrði hækkunin útfærð, hvenær kæmi hún til framkvæmdar?

Tafla 1. Framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara

Mánaðarleg útgjöld

134.108

Húsnæðiskostnaður*

157.500

Ýmis kostnaður

5.000

Samtals

296.608

Tekjur fyrir skatt (án frádráttar iðgjalds)

390.250

Ráðstöfunartekjur af 390.250 kr. á mán.

296.608

*Inn í upphæðinni fyrir húsnæðiskostnað er einnig rafmagn og hiti og ýmis gjöld s.s. fasteignagjöld og tryggingar aðrar en bílatryggingar.

Svar VG:

Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á að hækkun bóta almannatrygginga eigi að fylgja slíkum hækkunum. Það er ekki síst fyrir málflutning okkar sem tekist hefur að ná fram kjarabótum til lífeyrisþega, en slíkt virtist ekki vera á dagskrá Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Við leggjum áherslu á að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og viljum draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu. Þar er forgangsröðun okkar skýr. Við viljum byrja á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna. Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi er gríðarlega mikil kjarabót fyrir almenning, ekki síst þá sem eru tekjulágir og bera mikinn lyfja- og lækniskostnað.

Spurning 2:

Eitt af einkennum almannatrygginga á Íslandi eru miklar tekjutengingar við allar aðrar tekjur. Lífeyrisþegar upplifa því mikla ósanngirni gagnvart þeirri viðleitni sinni að afla viðbótartekna og að kerfið sé fjandsamlegt gagnvart atvinnuþátttöku þeirra og/eða sparnaði. Örorkulífeyrisþegar geta verið í þeirri stöðu að tekjur allt að rúmum 44 þús. krónu á mánuði annars staðar frá bæta engu við ráðstöfunartekjurnar þar sem greiðslur frá TR lækka um sömu upphæð. Hvað ætlar þitt framboð að gera til að draga úr og/eða afnema tekjutengingar í almannatryggingakerfinu (s.s. að hækka frítekjumörk, lækka skerðingarhlutfall, afnema krónu á móti krónu skerðingar, o.fl. )? Hvernig yrði það útfært og hvenær á kjörtímabilinu kæmi það til framkvæmda?

Svar VG: 

Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta. Atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu er gríðarlega mikilvæg. Annars vegar svo fólk geti bætt kjör sín með því að vinna eftir getu. Hinsvegar vegna þess að það er félagslega mikilvægt að vera virkur samfélagsþegn sem leggur til samfélagsins með vinnuframlagi sínu. Þess vegna er mikilvægt að almannatryggingakerfið sé atvinnuhvetjandi en ekki letjandi.

Við viljum afnema krónu á móti krónu skerðingar og draga úr tekjutengingum í kerfinu. Þess vegna vorum við í VG mjög ósátt við það að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur færu þá leið nú rétt fyrir þinglok að hækka bætur til örorkulífeyrisþega með því að setja alla hækkunina í sérstöku framfærsluuppbótina og auka þar með vægi þessara 100% skerðinga sem hingað til hefur verið samstaða um að draga beri úr í almannatryggingakerfinu. 

Spurning 3:

Fram til 1.1. 1988 var ekki greiddur skattur (tekjuskattur og útsvar) af örorkulífeyri almannatrygginga , þar sem persónuafsláttur var hærri. Örorkulífeyrisþegi með heimilisuppbót fékk 25% af persónuafslætti til að ráðstafa upp í aðrar tekjur eða fékk persónuafsláttinn greiddan út. Árið 2016  eru örorkulífeyrisþegar að greiða 37,13% skatt  (tekjuskatt og útsvar) af mánaðatekjum umfram tæp 140.000 kr.[1] á mánuði. Kjarahópurinn leggur til að tekjur undir 310.402 kr. verði ekki skattlagðar, og er hér miðað er við uppreiknaðan persónuafslátt frá 1988. Hefur þitt framboð á stefnuskránni að uppreikna  persónuafsláttinn frá 1988 til dagsins í dag og leiðrétta hann? Ef já, hvernig yrði það útfært og hvenær á kjörtímabilinu kæmi það til framkvæmda?

Svar VG: 

Í skattamálum leggjum við áherslu á að auk þess að afla fjár til reksturs innviða samfélagsins eigi það að vera til jöfnunar. Skattleysismörk eru meðal þess sem skoða þarf í því samhengi. Þá leggjum við áherslu á að þrepaskattur verði nýttur til jöfnunar í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum. Þannig er lögð áhersla á þeir ríkustu borgi hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði.

 

Heilbrigðismál 

Spurning 1:

Munið þið beita ykkur fyrir eflingu heilsugæslunnar? Já, hvenær, hvernig, í hvaða skrefum? Nei, af hverju ekki?

Svar VG: 

Styrkja þarf heilsugæsluna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hún verði alltaf fyrsti viðkomustaðurinn og koma á valfrjálsu tilvísanakerfi. Með því er þó ekki átt við að fólk með langvinna sjúkdóma þurfi ávallt að leita til heilsugæslunnar áður en það geti hitt sérfræðilækni sinn. Slíkt væri vitaskuld sóun á bæði fjármunum og mannafla.  Við viljum að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu. Þar verði byrjað á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna.

Spurning 2: 

Munið þið beita ykkur fyrir því að lækka kostnað vegna nauðsynlegra hjálpartækja og sjúkra, iðju-, og talþjálfunar? Já, hvenær, hvernig, í hvaða skrefum? Nei, af hverju ekki?

Svar VG: 

Hjálpartæki eru forsenda þess að fólk sem þau notar geti tekið þátt í samfélaginu. Þess vegna verður að skoða hvernig hægt er að lækka kostnað vegna þeirra. Við Vinstri græn lítum á það sem forgangsverkefni að sálfræðiþjónusta verði hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Sama gildir um tannlækningar, sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun.

Aðgengismál 

Spurning 1:

Munið þið beita ykkur fyrir því að breyta 30.gr fjölmiðlalaga nr. 38/2011 þannig að allt íslenskt sjónvarpsefni verði sent út textað svo hægt sé að kalla fram á síðu 888? Já, þá hvenær? Nei, af hverju ekki?

Svar VG: 

Já. Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG hefur í tvígang lagt fram lagafrumvarp sem er svohljóðandi: Við 30. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Myndefni sem fjölmiðlaveitur miðla skal ávallt fylgja texti á íslensku sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnisins eins nákvæmlega og kostur er. Þessi tillaga hefur því miður ekki enn fengist samþykkt en við höldum áfram að tala fyrir málinu og afla því almenns stuðnings.

Spurning 2: 

Ekkert eftirlit er með því að aðgengiskröfur séu uppfylltar eftir lokaúttekt á mannvirkjum. Munið þið beita ykkur fyrir því að sett verði á fót aðgengiseftirlit með viðurlögum sem slökkvilið myndi sinna samhliða eldvarnareftirliti? Já, þá hvenær? Nei, af hverju ekki?

Svar VG: 

Það er nauðsynlegt að fylgja því eftir að aðgengiskröfur séu uppfylltar. Við erum mjög jákvæð fyrir því að setja á fót aðgengiseftirlit og munum taka til skoðunar hvort það sé ekki einmitt kjörið að slökkviliðið sinni slíku samhliða eldvarnareftirliti eða hvort aðrar útfærslur séu heppilegri.

Spurning 3: 

Hversu margar kosningaskrifstofur rekur flokkurinn fyrir alþingiskosningarnar? Eru þær fyllilega aðgengilegar fyrir fatlað fólk, s.s. P-merkt bílastæði, lágir þröskuldar, salerni, rampar, o.s.frv.?

Svar VG: 

VG er með kosningaskrifstofur víðsvegar um land og nokkuð misjafnt aðgengi að þeim. Kosningaskrifstofan í Reykjavík hefur sérlega gott aðgengi. P-merkt stæði er beint fyrir utan, gengið er inn beint af götunni og salerni er aðgengilegt.

Spurning 4: 

Úttekt hefur verið gerð á heimasíðu flokksins m.t.t. aðgengis fyrir blinda, sjónskerta og hreyfihamlaða. Heimasíðan féll í þeirri úttekt og áskorun um að bæta aðgengi að heimasíðunni hefur ekki verið tekið. Stendur til að aðgengisbæta heimasíðuna fyrir alþingiskosningar? Nei, af hverju ekki?

Svar VG: 

Kosningaáherslur okkar má sjá á heimasíðu okkar (vg.is) nálgast á rituðu formi en einnig er hægt að hlusta á þær lesnar upp. Á næstu dögum verður einnig hægt að nálgast kosningaáherslurnar á táknmáli. Heildar endurbætur á aðgengi heimasíðunnar munu ekki ekki eiga sér stað fyrir kosningar. Þegar farið verður í þær endurbætur eru aðgengismál efst á listanum yfir þau atriði sem verða að vera í lagi.