Forystufólk aðildarfélaga Öryrkjabandalags Íslands kom saman á formannafundi á Grand hóteli í gær. Þar var farið yfir stöðu mála í baráttumálum ÖBÍ og fleira, auk þess sem formenn settust á skólabekk í skamma stund.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, flutti skýrslu formanns. Þar fór hún yfir stöðu mála í ýmsum baráttumálum bandalagsins síðustu vikur á mánuði. Komið var inn á margt sem meðal annars var nefnt í Fréttabréfi ÖBÍ sem gefið var út á dögunum. Formenn aðildarfélaga höfðu jafnframt í aðdraganda fundar fengið sendar skýrslur síðustu mánaða frá formanni.
Líflegar umræður urðu um skýrslu Þuríðar og er gott til þess að vita að aðildarfélögin standa þétt að baki formanninum.
Þá voru kynnt drög að siðareglum ÖBÍ en um það sá Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ.
Formenn á skólabekk
Síðari hluti fundarins var helgaður fræðslu, en forystufólk fékk námskeið hjá Hildi T. Flóvenz sem er sérfræðingur hjá KPMG. Fjallaði Hildur um hlutverk og ábyrgð stjórna félagasamtaka. Góður rómur var gerður að þessu, enda öll fræðsla mikilvæg. Í þessu sambandi má nefna að 43 aðildarfélög ÖBÍ koma fram fyrir hönd á um fjórða tug þúsunda manna, svo ábyrgð stjórnenda í þessum samtökum er mikil.
Myndir frá fundinum