Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurFréttMálefni barna

Vegna fyrirhugaðrar endursendingar drengs með Duchenne vöðvarýrnun

By 17. maí 2024júní 7th, 2024No Comments
Stjórnarráðshúsið.

ÖBÍ réttindasamtök leggjast gegn fyrirhugaðri endursendingu Yazan M. K. Aburajabtamimi, 11 ára gamals drengs greindum með Duchenne vöðvarýrnun, frá Íslandi til Spánar.

Yazan hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt foreldrum sínum. Útlendingastofnun hefur tekið ákvörðun um endursendingu þeirra með vísan til ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar og hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðunina með úrskurði dagsettum 21. mars 2024.

Að mati ÖBÍ sýna gögn málsins fram á hættu á því að rof á þeim meðferðum sem hann gengst undir hér á landi geti haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilbrigði hans og lífslíkur. ÖBÍ telur sýnt að endursending til annars lands geti orskaða slíkt rof. Þá fær ÖBÍ ekki séð að tryggt sé að slíkt rof verði ekki og að óvissa sé um hvort Yazan muni fá nauðsynlegar meðferðir á Spáni.

ÖBÍ tekur undir mótmæli og sjónarmið Duchenne samtakanna sem þau birtu í yfirlýsingu vegna málsins fyrr í þessum mánuði.

Telur ÖBÍ að stjórnvöldum beri að taka mál Yazan upp að nýju, að mál fjölskyldunnar verði tekin til efnislegarar meðferðar og þeim veitt dvalarleyfi á Íslandi.

ÖBÍ minnir stjórnvöld á ríka skyldu sína til að tryggja sérstök réttindi fatlaðs fólks og barna og minnir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og yfirstandandi áform ríkisstjórnarinnar um lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem og landsáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum fatlaðs fólks sem er liður í lögfestingu samningsins.

Í 24. gr. Barnasáttmálans kemur fram að aðildarríki viðurkenni rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skuli kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.

Á meðal þess sem fram kemur í 25. gr. SRFF er að aðildarríki samningsins viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar og að þau skuli veita þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, þ.m.t. meðal barna.

Í 10. gr. samningsins, sem fjallar um réttinn til lífs, segir að aðildarríkin árétti að sérhver manneskja eigi eðlislægan rétt til lífs og skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið hans á árangursríkan hátt til jafns við aðra.

Er í því ljósi ítrekað fyrrnefnt mat ÖBÍ að hætta sé á alvarlegum og óafturkærfum afleiðingum fyrir heilbrigði og lífslíkur Yazan.