ÖBÍ telur gríðarlega mikilvægt að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður verulega og unnið skuli að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.
En allir málaflokkar þeir sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir, og þrátt fyrir að stjórnvöld tali fjálglega um kaupmáttaraukningu öryrkja og að verulegu fjármagni hafi verið bætt við málaflokka fatlaðs fólks og öryrkja, þá vantar enn stórlega upp á að fólk geti lifað með reisn í íslensku samfélagi.
Í þessu sambandi er þó ánægjulegt að líta til nýsamþykktra ályktana á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar sem fundurinn ályktaði nokkuð sterkt um kjör öryrkja, og ekki síst barna þeirra. Í ályktun fundarins um kjör öryrkja kemur fram að:
“…þrátt fyrir að nokkuð hafi áunnist við að bæta kjör öryrkja er enn langt í land með að kjör þeirra séu ásættanleg. Nauðsynlegt er að hækka lífeyri, en huga þarf sérstaklega að kjörum þeirra sem ekki hafa neinar aðrar tekjur sér til framfærslu.”
Undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, ættu það að vera hæg heimatökin fyrir VG að koma ályktun landsfundar í framkvæmd. En fjárlögin bera þess engin merki. Enn eitt árið er örorkulífeyrir aðeins hækkaður til samræmis við vísitölu neysluverðs. Enn eitt árið víkkar gjáin milli lægstu launa og örorkulífeyris, svo að á næsta ári verður örorkulífeyrir 80 þúsund krónum lægri en lámarkslaun. Örorkulífeyrir verður því ekki nema um 76% af lámarkslaunum. Fjárlagafrumvarpið mismunar því lífeyrisþegum, samanborið við fólk á vinnumarkaði. Þau markmið í áherslum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, um að fólk skuli lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi, með tækifærum til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra, virðast því enn aðeins í orði en ekki borði.
Það veldur ÖBÍ einni sérstökum vonbrigðum að sjá að ekki er bætt í fjármagn sem rík þörf er á til að huga sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks við alla lagagerð, í samræmi við fullgiltan samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Umsögn ÖBÍ, sem telur 30 síður, má finna og lesa í heild sinni hér.