Skip to main content
Frétt

Umsögn ÖBÍ um húsnæðisbótafrumvarpið

By 4. febrúar 2016No Comments
Öryrkjabandalag Íslands skilaði umsögn um húsnæðisbótafrumvarp, Eyglóar Harðardóttur, félag- og húsnæðismálaráðherra, þann 22. janúar síðastliðinn. Fjölmargar athugasemdir eru gerða við frumvarpið, því þar er meðal annars gert ráð fyrir að herða skerðingarmörk sem mun bitna þyngst á fjölskyldufólki.

Í lokaorðum umsagnar ÖBÍ segir:Hús í miðbæ Reykjavíkur
„Mikilvægt er að húsnæðisstuðningur við tekjulága leigjendur sé aukinn verulega í ljósi aðstæðna á leigumarkaði. Á meðan húsaleiga hefur hækkað verulega undanfarin ár, hafa húsaleigubætur lækkað umtalsvert að raungildi. Því er brýnt að kveðið sé skýrt á um í lögum að húsnæðisstuðningur hækki reglulega í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs, til að tryggja hag tekjulágra einstaklinga á leigumarkaði.

Einnig þarf að hækka reiknistuðla og frítekjumörk frumvarpsins, svo það nái þeim tilgangi að lækka húsnæðiskostnað hjá tekjulágum leigjendum og á það sérstaklega við um heimili með fleiri en einum. Ef frumvarpið fer í gegnum með bráðabirgðaákvæði í 31. gr. (Gildistaka) um að ekki sé tekið tillit til fjölda heimilismanna á árinu 2016 mun það leiða til lækkunar húsnæðisstuðnings til einstæðra foreldra og hjóna með börn, sem eru lífeyrisþegar.

Með frumvarpinu er tekin upp harðari útfærsla tekjuskerðinga gagnvart lífeyrisþegum, sem bitnar á lífeyrisþegum með börn, en breyting þessi er gerð með tilvísun til aukins jafnræðis milli lágtekjuhópa. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt mun réttur örorkulífeyrisþega og barna þeirra, til húsnæðisstuðning verða skertur með afar grimmum hætti eins og sjá má á dæmum í frumvarpinu sjálfu og dæmum í umsögn þessari. Gengur slíkt þvert gegn tilgangi frumvarpsins og myndi bitna á börnum örorkulífeyrisþega, sem og öðrum börnum, sem nú þegar líða skort sbr. niðurstöður nýrrar skýrslu UNICEF. Er ætlun alþingismanna virkilega sú að skerða kjör þessa hóps?

Í þessari umsögn hefur aðeins verið drepið á fáeinum álitamálum sem upp hafa komið við yfirferð frumvarpsins. ÖBÍ áskilur sér rétt til að senda inn aðra og ítarlegri umsögn síðar.“