Skip to main content
DómsmálFréttTR

Tryggingastofnun endurgreiðir kröfur vegna dráttarvaxtagreiðslna.

By 17. febrúar 2020október 16th, 2023No Comments
Í bréfi sem Tryggingastofnun sendi frá sér 4. febrúar s.l. kemur fram að stofnunin hafi ákveðið að fella niður eða endurgreiða kröfur vegna fjármagnstekna á árinu 2018.

Þessar fjármagnstekjur voru dráttarvaxtagreiðslur sem Reykjavíkurborg greiddi í kjölfar dóms Hæstaréttar um að borginni væri óheimilt að mismuna íbúum borgarinnar nema málefnaleg rök lægju þar að baki.

Frekari upplýsingar um forsögu málsins má finna hér: https://www.obi.is/is/utgafa/frettir/refsad-fyrir-leidrett-ranglaeti

Öryrkjabandalagið hefur allt frá því ljóst var í hvað stefndi, unnið ötullega í málinu, en þrátt fyrir að hafa bent á ýmsar leiðir til að þeir einstaklingar sem um ræðir yrðu ekki fyrir skerðingu vegna fjármagnsteknanna, var komið að lokuðum dyrum.

Nú hefur Tryggingastofnun ákveðið að fella niður kröfur þessar, og endurgreiða þar sem það á við. Við vinnslu tillagna að tekjuáætlunum lífeyrisþega fyrir árið 2020 kom í ljós hjá stofnuninni að nauðsynlegt væri að afla betri upplýsinga um þá sem fengu umrædda dráttarvexti, svo dráttarvextirnir myndu ekki hafa áhrif inn í árið 2020 líka, þá til lækkunar lífeyrisréttinda þeirra sem fengu.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ segist afar ánægð með þessa niðurstöðu. „Við höfum barist í þessu máli í rúmt ár, og upplifað það sterkt hversu flókið kerfið er og þungt í vöfum. Þetta er því einstaklega ánægjuleg niðurstaða, því nú er tryggt að  þessi niðurfelling nái til allra sem í hlut áttu.“

 Og nú rúmu ári eftir að ÖBÍ vakti athygli ráðherra á málinu, hefur TR sent þeim sem um ræðir bréf um að ákveðið hafi verið að fella kröfurnar niður.