Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Tímamótaleikverk fá Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2024

Hópmynd, verðlaunahafar og tilnefnd, brosandi með blómvendi ásamt forseta Íslands og Ölmu Ýr, formanni ÖBÍ

ÖBÍ réttindasamtök veittu tveimur leikverkum Hvatningarverðlaunin á Grand hótel í dag, alþjóðadag fatlaðs fólks. Handhafar verðlaunanna í ár eru Fúsi, aldur og fyrri störf og Taktu flugið, beibí.

Halla Tómasdóttir forseti afhenti verðlaunin og minnti í ávarpi sínu á mikilvægi kærleikans. Hún sagðist jafnframt vonast til þess að næsta ríkisstjórn haldi málaflokki fatlaðs fólks á lofti.

„Eigum við ekki að vona að hver sem ríkisstjórnin verður eftir þessar kosningar, að þá verði það ríkisstjórn sem setji þau mál [málefni fatlaðs fólks] á dagskrá með enn sterkari hætti,“ sagði forsetinn.

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ, óskaði öllum hinum tilnefndu til hamingju og þakkaði þeim fyrir raddir sínar og styrk.

„Í okkar réttindabaráttu dugir ekki bara til að fatlað fólk standi eitt í henni heldur verður samfélagið að leggja okkur lið, ekki bara þegar það hentar vel, heldur alltaf. Samfélagið verður að leggja okkur lið í inngildingunni alls staðar. Tilnefnd eru svo sannarlega að gera það í sínum víðasta skilningi,“ sagði Alma Ýr.

Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, oftast kallaður Fúsi, veitti verðlaunum viðtöku en hann er annar höfunda leikverksins, ásamt Agnari Jóni Egilssyni. Þá tók Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir á móti verðlaunum, en hún er höfundur Taktu flugið, beibí.

Einnig voru tilnefnd Dagbjört Andrésdóttir og leikskólinn Múlaborg, en upplýsingar um öll hin tilnefndu má finna hér að neðan.

Atli Þór Þorvaldsson, fulltrúi dómnefndar, orti vísu um verðlaunahafana í tilefni dagsins:

„Fatlaðir sjást varla á sviði

svo hefur verið um hríð

þau hafa því lokið upp hliði

sem gefur vonir um betri tíð

Hún yrkir og skrifar sögur

Hreinskilnin er eins og högg

Og listin er einlæg og fögur

Við kynnum hér Kolbrúnu Dögg

Hér er annar sem fer út úr húsi

Hann veit vel hvar sín er þörf

Það er meistarinn Fúsi

Með aldur og fyrri störf

Hvatningarverðlaun ÖBÍ eru veitt ár hvert á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember. ÖBÍ réttindasamtök standa samhliða því að átakinu Upplýst samfélag, þar sem stofnanir og fyrirtæki um allt land eru hvött til að lýsa fjólubláu og sýna réttindabaráttu fatlaðs fólks þannig stuðning.

Tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2024

Dagbjört Andrésdóttir

Dagbjört Andrésdóttir hefur staðið fyrir umfangsmikilli vitundarvakningu um heilatengda sjónskerðingu. Hún er einn höfunda heimildarmyndarinnar Acting Normal with CVI, en myndin fjallar um lífshlaup hennar og er fyrsta heimildarmyndinn sem gerð er um heilatengda sjónskerðingu í heiminum.

Dagbjört, sem fékk fyrst greiningu á heilatengdri sjónskerðingu þegar hún var 26 ára gömul, hefur samhliða útgáfu myndarinnar veitt fjölda viðtala um heilatengda sjónskerðingu og bæði aukið vitund um skerðinguna og barist fyrir réttindum.

Fúsi, aldur og fyrri störf (verðlaunahafi)

Leiksýningin Fúsi, aldur og fyrri störf, markar tímamót í íslensku atvinnuleikhúsi. Sýninguna skrifa frændurnir Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson og Agnar Jón Egilsson en verkið fjallar um ævi hins fyrrnefnda. Þetta er í fyrsta sinn sem leikskáld og leikari með þroskahömlun leikur og semur eigið verk í íslensku atvinnuleikhúsi.

Leikverkið hefur verið sýnt í Borgarleikhúsinu og víðar um land við mikla hrifningu áhorfenda og var tilnefnd til fjölda Grímuverðlauna árið 2024. Fúsi, aldur og fyrri störf, er sett upp í samstarfi við sviðsliðstaframleiðandann Monochrome og List án landamæra.

Múlaborg

Leikskólinn Múlaborg við Ármúla er leiðandi hvað varðar inngildingu í víðum skilningi. Skólastarfið er án aðgreiningar en þar eru bæði fötluð börn og starfsmenn og starfsfólk og börn af erlendum uppruna. Með inngildingu í fyrirrúmi og aðgreiningarlausu skólastarfi hefur Múlaborg tryggt leikskólaumhverfi þar sem öll fá notið sín.

Taktu flugið, beibí (verðlaunahafi)

Taktu flugið, beibí er fyrsta leikverk sviðshöfundarins Kolbrúnar Daggar Kristjánsdóttur sem sett er á svið í atvinnuleikhúsi. Kolbrún leikur sjálf í verkinu, sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu, en það byggir á persónulegri reynslu og lífshlaupi höfundar.

Leikverkið Taktu flugið, beibí markar kaflaskil enda eykur það sýnileika og bætir birtingarmyndir fatlaðs fólks í íslensku atvinnuleikhúsi. Kolbrún Dögg hefur um áratugaskeið barist fyrir aðgengismálum og öðrum réttindamálum fatlaðs fólks.