Málavextir voru þeir að sá sem leitaði álits Umboðsmanns, var á biðlista eftir sérstöku húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk hjá Reykjavíkurborg. Til stóð að úthluta íbúð sem féll undir það úrræði og var viðkomandi tilnefndur af sinni þjónustumiðstöð. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2014, tilkynnti þjónustumiðstöðin henni að fjallað hefði verið um umsókn hennar og hún samþykkt á biðlista. Auk þess var í bréfinu vakin athygli á nauðsyn þess að vera í reglulegu sambandi við viðkomandi þjónusturáðgjafa vegna umsóknarinnar og að enn fremur væri mikilvægt að gerð væri grein fyrir því ef aðstæður breyttust sem gætu haft áhrif á stöðu umsóknarinnar. Af gögnum málsins má ráða að A þurfi vegna fjölfötlunar sinnar á mikilli aðstoð að halda við allar daglegar athafnir. Hún hafi búið hjá móður sinni sem henti ekki vel, m.a. vegna aðgengismála, þar sem þær búa í lyftulausri blokk og A eigi í miklum erfiðleikum með að komast upp stiga.
Í janúar 2018 fékk viðkomandi svo upplýsingar um að taka ætti fyrir umsókn hennar, og m.a. óskað eftir nýju læknisvottorði. Tekið var fram að fáar íbúðir væru í boði, og að velja ætti á milli 44 einstaklinga. Umsókn viðkomandi, ásamt öðrum umsóknum sem tilnefndar höfðu verið til úthlutunar í sértækt húsnæðisúrræði, voru teknar fyrir á úthlutunarfundi hjá Reykjavíkurborg 20. mars 2018 þar sem tilteknum íbúðum var úthlutað. Ekki fékk viðkomandi úthlutað íbúð, en tilkynnt að hún væri enn á biðlista.
Réttindagæslumaður kærði ákvörðun þessa til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem vísaði málinu frá á þeim grundvelli að viðkomandi hefði ekki verið „aðili máls“, en í úrskurðinum segir m.a.:
„Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi er á biðlista eftir sértæku húsnæðisúrræði og því hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun í máli hennar.“
Umboðsmaður rekur í álitinu rök úrskurðarnefndar og segir svo í niðurstöðum sínum:
„Aðild að stjórnsýslumáli veitir þeim sem í hlut á m.a. ákveðna réttarvernd samkvæmt stjórnsýslulögum í formi þess að fá aðgang að gögnum máls, rétt til að koma að sjónarmiðum sínum áður en ákvörðun er tekin, rétt til rökstuðnings og leita endurskoðunar á ákvörðun ef viðkomandi er ekki sáttur við hana. Að virtum þeim lagareglum sem gilda um hlutverk sveitarfélaga er það í samræmi við þær skyldur sem hvíla á þeim að tryggt sé að málsmeðferð í tengslum við úthlutanir sértæks húsnæðisúrræðis sé í samræmi við lög. Í þessum efnum hef ég jafnframt í huga að forsenda þess að fatlað fólk geti nýtt sér lögbundinn stuðning við gæslu réttinda sinna er að fyrir liggi upplýsingar og gögn um hvernig málsmeðferð í málum þeirra hefur verið háttað hjá stjórnvöldum. Af þessu leiðir að réttaröryggisrök mæla með því að þeir sem hafa fengið umsóknir sínar samþykktar og gerð hefur verið tillaga um að koma skuli til greina við úthlutun á tilteknu húsnæðisúrræði af því tagi sem hér er fjallað um, og koma þannig til mats með samanburði við aðra umsækjendur sem gerð hefur verið tillaga um, geti fengið upplýsingar um hvaða málefnalegu sjónarmið búa að baki ákvörðun sem hefur verið tekin og geti eftir atvikum látið reyna á hana hjá æðra stjórnvaldi.“
Og niðurstaða umboðsmanns er að það sé álit hans að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála „ … hafi ekki verið í samræmi við lög. Sú niðurstaða byggist á því að A hafi, eftir að gerð var tillaga um hana í tiltekið húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg, átt aðild að því stjórnsýslumáli sem lauk með stjórnvaldsákvörðun um úthlutun þess á fundi velferðarsviðs borgarinnar 20. mars 2018 til annars umsækjanda og þar með getað kært málið til úrskurðarnefndarinnar.
Ég beini því til úrskurðarnefndar velferðarmála að hún taki mál A til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hafa verið í álitinu. Jafnframt beini ég því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.“
Þá sendi umboðsmaður Reykjavíkurborg afrit af álitinu til upplýsinga, með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort tilefni sé til að taka almennt verklag sveitarfélagsins við úthlutun sértækra húsnæðisúrræða til skoðunar.