Skip to main content
Frétt

Það kaupir enginn jólamatinn í dag með veði í loforði ríkisstjórnarinnar um betri tíð

By 15. desember 2021No Comments
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, kvaddi sér hljóðs á Alþingi um störf þingsins, og gerði að umræuefni orð fjármálaráðherra úr fréttum RÚV, þar sem hann sagði að örorkulífeyriskerfið eigi ekki að byggja á viðbótargreiðslum og óvæntum glaðningum. Þingmaðurinn taldi ástæðu til að staldra við þessa hugtakanotkun.

 Ræða Sigmars er hér í heild sinni.

„Já virðulegur forseti. Það er sársaukarfullt að lesa tölvupósta sem að streyma til okkar Alþingismanna þessa dagana frá öryrkjum og fátæku fólki, sem að kvíðir jólunum. Póstarnir eru allir með tölu ákall um hjálp. Ekki bara beiðni um örlitla aðstoð eða lítið viðvik heldur nístandi neyðaróp fólks sem getur ekki framfleytt sér með þeirri hungurlús sem að ríkið skammtar þeim. Flestir eru að spyrjast fyrir um þá eingreiðslu sem þeir fengu fyrir jólin í fyrra. Þetta voru litlar 50.000 krónur og hvort líkur séu á að stjórnvöld grípi aftur til sama úrræðis. Við í Viðreisn styðjum það eindregið en það gerir ríkisstjórnin hins vegar ekki, að minnsta kosti ekki hingað til. Hæstvirtur fjármálaráðherra kallaði þetta glaðning í fjölmiðlum í gær. Ég held að það sé ástæða til að staldra aðeins við þessa hugtakanotkun. Þegar börnin okkar fá í skóinn frá jólasveininum þá er óhætt að kalla það glaðning. Lilti súkkulaðimolinn í koddanum í hótelherberginu er glaðningur. Sú frumskylda æðsta gæslumanns almannafjár, að sjá til þess að fólk svelti ekki og að börn þess svelti ekki er ekki glaðningur, heldur einmitt eins og orðið ber með sér skylda. Við sem setjum hér lög og reglur og deilum út fjármagni eigum ekki að líta svo á að við séum í hlutverki jólasveinsins og að fjárveitingar úr samneyslunni séu einhvers konar glaðningur. Hlutverk okkar hér byggist á skyldu okkar gagnvart fólki. Við erum ekki einhvers konar veislustjórar eða velgjörðarmenn sem sáldrum silfri tilviljanakennt yfir landslýð. Hæstvirtum fjármála- og forsætisráðherra er báðum tíðrætt um uppstokkun á almannatryggingakerfinu, það er löngu tímabært, enda kerfið allt of flókið, það er bútasaumur, alsett girðingum og skerðingum sem læsir fólk inni og festir í fátæktargildru. Ég hvet hæstvirta ráðherra til að muna að uppstokun á flóknu kerfi í framtíðinni færir ekki fátæku fólki mat á diskinn fyrir þessi jól. Það vita það allir sem vilja vita að enginn kaupir jólamatinn í dag með veði í loforði ríkisstjórnarinnar um betri tíð.“

Fleiri þingmenn kvöddu sér hljóðs undir þessum sama dagsrkárlið, og ljóst að ummæli fjármálaráðherra höfðu farið fyrir brjóstið á þeim.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gagnrýndi að stjórnarflokkarnir settu talsvert háar  fjárhæðir í að fjölga ráðuneytum til að tryggja valdahlutföll  flokkanna og leyfa minnsta flokknum að leiða áfram ríkisstjórn. „Aftur og aftur sést hvað Sjálfstæðisflokkurinn er kominn langt frá ábyrgum og skynsamlegum ríkisrekstri. Þetta er nýjasta dæmið. Annað dæmi hvernig ráðuneytin blása út.“ Á sama tíma virtist virtist ríkisstjórnin virðist ekki ætla að veita öryrkjum sérstaka uppbót fyrir jólin.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði kjör öryrkja að umræðuefni sínu og sagði grunnbæturnar vera fimmtunginn af launum þingmanna. „Myndum við hérna inni treysta okkur til að lifa á svona kjörum? Ég er ekki viss um það.“

Hann sagði að stjórnvöld töluðu á hverju kjörtímabili um heildarendurskoðun bótakerfa án þess að nokkuð breyttist að ráði. Hann sagði að ef þingmenn gætu ekki sameinast um að bæta kjör öryrkja almennt ættu þingmenn að minnsta kosti „fjandinn hafi það“ að sameinast um að tryggja öryrkjum eingreiðslu í desember, skatta- og skerðingalaust eins og í fyrra.

En umræðuna hóf Inga Sæland sem gagnrýndi ráðherran harðlega og hélt meðal annars uppi blöðum í ræðustól með tilvitnun í fjármálaráðherra frá fréttum RÚV.

Hún sagði að í málefnum fólks á bótum gilti í huga ráðherra að grunnkerfið ætti að duga og ekki koma til aukagreiðslna. Þegar hins vegar væri litið til fyrirtækja gilti að ef grunnkerfið dugar ekki þyrfti að bjóða upp á sértækar aukagreiðslur.

„Þetta segir hæstvirtur fjármálaráðherra í blússandi covid og blússandi fjármálaráðherra þegar fólkið verður fátækara með degi hverjum og það eru að koma jól,“ sagði Inga Sæland. „Þannig hefur jú covid-aðgerðin okkar verið í gegnum þennan faraldur: Fyrirtækin eru númer eitt. Fólkið er ekki þar með.“