Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur svarað ákalli ÖBÍ réttindasamtaka og LEB (Landssambands eldri borgara) og lagt til að fallið verði frá áformum um brottfall persónuafsláttar örorku- og ellilífeyristaka búsettra erlendis. Tillagan kemur fram í meirihlutaáliti nefndarinnar sem dreift var á Alþingi í gær.
Frumvarp sem fól í sér tillögu um brottfall persónuafsláttar lífeyristaka búsetta erlendis var lagt fram af fjármálaráðuneytinu á haustþingi 2023. ÖBÍ vakti strax athygli á málinu og benti á að lög þess efnis myndu hafa alvarleg áhrif á framfærslu fjölda lífeyristaka erlendis. Lögin voru samþykkt en vegna athugasemda ÖBÍ var gildistöku þeirra frestað og áskilnaður gerður um að áhrif laganna á lífeyristaka yrðu könnuð nánar.
Á yfirstandandi þingi hafa ÖBÍ og LEB barist fyrir því að ákvæðið verði fellt úr lögum. Samtökin hafa átt fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og stjórnvöldum og veitt umsagnir um málið. ÖBÍ hefur komið á framfæri við þingið lögfræðiáliti sem samtökin létu vinna um möguleg áhrif laganna og þá óvissu sem enn ríkir og hefur ekki verið til lykta leidd.
Sem fyrr segir hefur ákallinu nú verið svarað af efnahags- og viðskiptanefnd og fagna samtökin þeim áfanga. ÖBÍ þakkar nefndinni og öðrum sem hafa veitt málflutningi samtakanna áheyrn og sýnt málefnum fatlaðs fólks áhuga og skilning. ÖBÍ hvetur Alþingi til að afgreiða málið sem fyrst og halda til framtíðar mannréttindi fatlaðs fólks í heiðri.
Lesa má nefndarálitið hér: 356/155 nefndarálit: skattar og gjöld | Þingtíðindi | Alþingi
» Skattar og gjöld (nýsköpun, virðisaukaskattur o.fl.) – Umsögn ÖBÍ, 31. október 2024
» Pössum upp á persónuafsláttinn – Frétt ÖBÍ, 22. október 2024