Skip to main content
Frétt

Styttist í hvatningaverðlaun ÖBÍ.

By 2. september 2019No Comments
Hvatningaverðlaun ÖBÍ verða afhent í desember næstkomandi, og frestur til að skila inn tilnefningum rennur út þann 15. september næstkomandi.

Hvatningaverðlaunin eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og eru nú veitt í fjórum flokkum

  1. Einstaklingur 
  2. Fyrirtæki eða stofnun
  3. Umfjöllun eða kynning
  4. Verkefni innan aðildarfélaga ÖBÍ 

Undirbúningsnefnd fer yfir allar tilnefningar og velur þrjá úr í hverjum flokki og skilar af sér til dómnefndar sem velur verðlaunahafana. Í dómnefnd sitja fimm manns og er leitast við að nefndin endurspegli samfélagið á sem bestan hátt. Í nefndinni þetta árið sitja Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma og ofnæmisfélagi Íslands, formaður, Helga Magnúsdóttir, Sjálfsbjörg, Hrannar Björn Arnarson, ADHD samtökunum, Karl Þorsteinsson, Ás styrktarfélagi, Valur Höskuldsson, MND félaginu á Íslandi og Vignir Ljósálfur Jónsson, HIV-Íslandi. Starfsmaður undirbúningsnefndarinnar er Kristín Margrét Bjarnadóttir.

Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður hannaði verðlaunagripinn og hafði hún samfélagið í huga. Fólkið er byggingaeiningar eða púsl verksins sem er gert úr fjölda skífa. Með verkinu vill Þórunn koma á framfæri að: „…við eigum að opna fyrir alla tengimöguleika, ekki vera svo þröngsýn að við gerum ráð fyrir því að allir séu eins og passi í sama farið. Þetta á við um allt aðgengi að þátttöku í samfélaginu, hvort sem við erum að tala um samgöngur, samskipti eða viðskipti …”

Ef þú veist af einstaklingi, fyrirtæki eða stofnun, hefur séð umfjöllun eða kynningu eða unnið að verkefni innan aðildarfélaga ÖBÍ sem hafa stuðlað að einu samfélagi fyrir alla, og endurspeglar nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks, ekki hika við að senda inn tilnefningu.

Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, mun svo afhenda verðlaunin á alþjóðadegi fatlaðra, þann 3. desember.