Fyrir hreyfihamlað fólk er bíllinn eitt mikilvægasta hjálpartækið og forsenda fyrir því að geta farið milli staða. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða þurfa að uppfylla sérstök ákvæði til að vera nothæf, svo sem um nálægð við áfangastað, lágmarksstærðir og hámarkshalla. Um þau verða að gilda skýrar reglur, en almenn tillitssemi er líka nauðsynleg. Hver er staðan og hvert er stefnt?
Málefnahópur ÖBÍ um aðgengi stendur fyrir málþingi 12. mars næstkomandi um aðgengi að bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í tengslum við alþjóðlegan dag aðgengis. Á málþinginu verður fjallað um hvaða reglur gilda um bílastæði fyrir hreyfihamlaða og stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, og hvaða breytingar eru fyrirhugaðar. Kynntar verða áherslur ÖBÍ um ný umferðarmerki fyrir hreyfihamlað fólk og um aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Þá verður aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar afhent í annað sinn.