Mikilvæg stefnubreyting ASÍ
Fjallað er um stefnubreytingu Alþýðusambands Íslands í málum sem varða mikilvæga hagsmuni örorkulífeyrisþega í Morgunblaðinu á föstudag. Greint hefur verið frá því á þessum vettvangi að Alþýðusamband Íslands hefur fallið frá hugmyndum um starfsgetumat. Þetta var samþykkt á nýafstöðnu þingi ASÍ. Lögð er áhersla á að auka samstarf við Öryrkjabandalag Íslands um málefni sem varða almannatryggingakerfið og að krónu-á-móti-krónu skerðing verði afnumin strax.
Þuríður segir við Morgunblaðið að oft sé um að ræða fólk í láglaunastörfum sem hefði unnið 2-3 störf til að ná endum saman. Það hefði oft svo lítil réttindi að það hefði ekki efni á að hætta vinnu um sjötugt.
„Stjórnvöld þurfa að byggja upp traust
því þau njóta ekki mikils trausts
í þessum hópi.“
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Atvinnurekendur á öðrum stað
Bent er á það í Morgunblaðinu að lengi hafi verið rætt um að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats hér á landi. Þuríður segir að öryrkjar vilji ekki fá starfsgetumat eins og það sem kynnt hefur verið. Sífellt fleiri sem metnir eru til örorku fari á tímabundna örorku og svo hafi verið undanfarna tvo áratugi. Í örorkumatinu felist starfsgetumat að vissu marki.
„Frá aldamótum hefur það verið stefna víða í löndum í kringum okkur að taka upp starfsgetumat. Það átti að leiða til þess að öryrkjar færu í auknum mæli út á vinnumarkaðinn. En það virðist hafa gleymst að vinnumarkaðurinn hefur ekki fylgt þessari hugsjón stjórnvalda eftir. Örorkulífeyrisþegar sem metnir eru með ákveðna starfsgetu hafa sjaldnast fengið vinnu við sitt hæfi. Hið endanlega starfsgetumat er hvort vinnumarkaðurinn tekur við okkur eða ekki,“ segir Þuríður. Hún sagði að versta afleiðing þessa væri að fólk með starfsgetumat en án vinnu lenti á atvinnuleysisskrá um tíma og væri svo ýtt þaðan á fátækrastyrk hjá sveitarfélögum.
Samningurinn lykilatriði
„Við viljum að þeir sem vilja og geta fái atvinnu við hæfi. En atvinnulífið hefur ekki verið tilbúið að taka á móti fólki sem hefur takmarkaða starfsgetu. Það þarf að skapa svigrúm með t.d. sveigjanlegum vinnutíma. Nú er það svo að þú vinnur annaðhvort 100% eða þú færð ekki vinnu,“ segir Þuríður.
„Stjórnvöld þurfa að byggja upp traust því þau njóta ekki mikils trausts í þessum hópi. Fólk hefur fylgst með reynslunni af starfsgetumati í öðrum löndum og er mjög hrætt við þetta. Þessi hópur hefur það slæmt og vill ekki lenda í því að hafa það verra. Starfsgetumat og viðeigandi aðlögun að vinnumarkaði þarf að vera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann hefur verið fullgiltur hér og við vonum að hann verði lögfestur fljótlega,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, í viðtali við Morgunblaðið.