Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skipaði starfshóp til að fara yfir fyrirkomulag varðandi hjálpartæki, sem hefur nú skilað ráðherra skýrslu sinni.
Hópurinn skoðaði sérstaklega hvernig þessum málum er háttað með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðannu um réttindi fatlaðs fólks.
Hópurinn leggur fyrir ráðherra tillögur til úrbóta í 6 liðum.
- Endurskoða reglugerðir er lúta að hjálpartækjum og skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samræma þarf reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja og lagaumgjörð vegna fatlaðs fólks í ljósi þess að lög nr. 59/1992 eru fallin úr gildi og ný lög nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, komin í þeirra stað. Jafnframt þarf að samræma skilgreiningar í ólíkum reglugerðum er snúa að hjálpartækjum.
- Einfalda skipulag við afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja. Afgreiðsla hjálpartækja er á höndum margra ólíkra aðila. Hjálpartækjamál heyra undir tvö ráðuneyti, auk þess sem sveitarfélögin útvega hluta hjálpartækja. Fyrir vikið getur afgreiðsla hjálpartækja orðið brotakennd og óljóst hver ber ábyrgð á að útvega nauðsynleg tæki. Lagt er til að skoðað verði hvort hægt sé að bæta þjónustu við notendur með breyttu stofnanaskipulagi, hvort ákvæði um styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna kaupa á bifreið til eigin nota verði færð í lög um sjúkratryggingar og hvort Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) annist framkvæmdina jafnframt því sem umsýsla vegna hjálpartækja í bifreiðar verði áfram í þeirra höndum. Þá er lagt til að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga vegna hjálpartækja verði endurskoðuð. Skoðað verði hvort farsælt sé að hjálpartæki til langtímanotkunar verði alfarið á kostnað og ábyrgð ríkisins.
- Endurskoða greiðsluþátttöku vegna hjálpartækja með það að markmiði að draga úr kostnaði notenda. Samræma þarf greiðsluþátttöku hins opinbera vegna mismunandi flokka hjálpartækja sem og kostnaðarhlutdeild og greiðslubyrði einstaklinga sem nota hjálpartæki vegna mismunandi fötlunar. Þá þarf kostnaðarhlutdeild hins opinbera að fylgja verðlagsbreytingum. Jafnframt þarf að taka til endurskoðunar álagningu virðisaukaskatts á hjálpartæki. Tryggja verður að þörf fyrir hjálpartæki ráði úthlutun fremur en sjúkdómsgreining eða skráð lögheimili. Sem dæmi verði mögulegt að fá fleiri en eitt hjálpartæki fyrir börn sem eiga heimili á tveimur stöðum. Þá þarf að huga að þörf fatlaðra foreldra fyrir hjálpartæki við umönnun barna sinna.
- Fara þarf yfir forsendur sem lagaðar eru til grundvallar við mat á þörf fyrir hjálpartæki. Við mat á umsóknum um hjálpartæki verði horft til heildarþarfa umsækjanda hverju sinni. Þar sem sífellt fleiri 19 eiga við fjölþættan heilsufarsvanda að stríða er orðið mikilvægara en áður að hafa gott aðgengi að heildstæðri þekkingu á heilsufari og aðstæðum fólks sem sækir um hjálpartæki. Lagt er til að aðstoð fagaðila í tengslum við úthlutun hjálpartækja verði auðsóttari og hlutverk heilsugæslunnar eflt á því sviði. Lagt er til að Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu verði falið að útfæra leiðir og verklag sem snýr að því hvernig fagfólk með sérþekkingu á hjálpartækjum, svo sem iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar, geti orðið hluti af heilsugæslunni sem hafi m.a. það hlutverk að bæta þjónustu við úthlutun hjálpartækja.
- Bæta þarf upplýsingamiðlun varðandi hjálpartæki og þá viðgerðarþjónustu sem í boði er. Mikilvægt er að almennar upplýsingar um allt sem lýtur að hjálpartækjum séu á einum stað, t.d. á öflugri vefsíðu. Lagt er til að setja á ný upp sýningarsvæði þar sem þau hjálpartæki sem í boði eru hjá hinu opinbera verði kynnt á einum stað. Einnig er lagt til að viðgerðarþjónusta verði efld enn frekar, t.d. með sólarhringsþjónustu, þar sem bið eftir viðgerð á hjálpartæki hefur mikil áhrif á daglegt líf notandans og getur valdið vanlíðan.
- Farvegur fundinn fyrir reglubundið mat og innleiðingu nýjunga. Hjálpartæki eru í sífelldri þróun, sem og önnur stuðningstækni sem nýst getur fólki til sjálfstæðs lífs og aukinnar samfélagsþátttöku. Mikilvægt er að fylgjast með þróuninni og taka jafnt og þétt gagnlegar nýjungar í notkun. Ná þarf yfirsýn yfir það fjölbreytta úrval hjálpartækja sem í boði er hverju sinni og bjóða góð og hagstæð hjálpartæki.
Úr skýrslunni má lesa að fyrirkomulag hjálpartækjamála er brotakennt og á margra höndum. Hér hafa verið lagðar fram tillögur um hvernig bæta megi fyrirkomulagið notendum hjálpartækja til hagsbóta. Sumar tillögurnar eru þess efnis að tiltölulega einfalt er að hrinda þeim í framkvæmd en aðrar þurfa dýpri skoðun. Má þar sérstaklega nefna tækniþróun og hvernig staðið er að úthlutun nýrra og sérhæfðra hjálpartækja sem sérsniðin eru fyrir notendur. Þetta margþætta kerfi eykur hættuna á að jafnræði hvað varðar kostnað og þjónustustig fari forgörðum. Starfshópurinn bendir á að undanfarin ár hafa ýmsir aðrir starfshópar verið starfandi, sem hafa kafað ofan í atriði sem tengjast ýmist hjálpartækjamálum beint eða hafa skörun við málaflokkinn. Beinir hópurinn því til ráðherra að fara yfir þær ábendingar og tillögur til úrbóta sem komið hafa fram í tengslum við endurbætur á fyrirkomulagi hjálpartækjamála. Þá bendir starfshópurinn á að taka þarf fyrirkomulag hjálpartækjamála til reglulegrar skoðunar svo að þessi mikilvægu tæki og tól nýtist sem best og geri þeim sem á þeim þurfa að halda kleift að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi.