Mörgum mikilvægum spurningum hefur verið beint til frambjóðenda í bæjar- og sveitarstjórnakosningunum á fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.
Kosningarnar verða haldnar laugardaginn 26. maí næstkomandi. Öryrkjabandalag Íslands stendur fyrir opnum fundum víða um land í aðdraganda kosninganna. Þegar hafa verið haldnir fundir í Hafnarfirði, Reykjavík, Borgarbyggð, Snæfellsbæ, Stykkishólmi og á Akranesi. Næstu fundir verða haldnir á Egilsstöðum, Húsavík og Akureyri og í Garðabæ í þessari viku. Reiknað er með því að fundaherferðinni ljúki í næstu viku með fundum á Selfossi, Ísafirði og í Reykjanesbæ.
Fundirnir hafa verið vel sóttir og fjörugir. Frambjóðendur hafa fengið fjölmargar spurningar frá almenningi. Stundum hefur fundatíminn dugað til að fá botn í það allt, en oftar en ekki hafa margar mikilvægar spurningar orðið útundan. Því hefur verið ákveðið að birta spurningarnar hér opinberlega og senda framboðunum sérstaklega. Við athugum að spurningum getur fjölgað eftir því sem fleiri fundir eru haldnir. Svör framboðanna verða svo birt hér jafn óðum og þau berast.
Spurningar frá almenningi
- Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir.
- Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?
- Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?
- Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
- Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?
- Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?
- Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?
- Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?
- Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?
- Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?
- Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?
- Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar? Já eða nei!
- Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?