Aðgengi eða yfirborð að 166 af alls 168 stoppistöðvum fyrir Strætó á landsvísu telst slæmt eða mjög slæmt. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir ÖBÍ réttindasamtök. Skýrslan „Ástand stoppistöðva á landsvísu“ er birt í dag
Til skoðunar var hvort aðgengi fyrir fatlað fólk að stoppistöðvum landsbyggðarleiða Strætó standist kröfur en yfirlýst markmið stjórnvalda er að níu af hverjum tíu geri það árið 2024. Ekki lá fyrir hver staðan var í dag. Því sömdu ÖBÍ réttindasamtök við VSÓ ráðgjöf um að gera úttekt á biðstöðvum.
Þessi úttekt kemur í framhald skoðunar á þeim 556 stoppistöðvum í Reykjavík sem Reykjavíkurborg lét skoða sumarið 2022. Þar töldust fjórar stöðvar með gott aðgengi og ellefu með gott eða mjög gott yfirborð.
Þessi nýja úttekt á stöðunni á landsbyggðarleiðum strætisvagna sýnir að staðan þar er ekki betri. Alls voru til skoðunar 168 biðstöðvar. Litið var til aðgengis fyrir hjólastólanotendur, göngu-, arma- og handskerta, blinda og sjónskerta, þroskahamlaðra og þroskaskertra sem og til yfirborðsins við biðstöðvarnar.
„Greining leiddi í ljós að af 168 stoppistöðvum voru 165 – 166 sem voru með slæmt eða mjög slæmt aðgengi og/eða yfirborð. Stoppistöðvarnar eru því almennt nokkurn spöl frá því að uppfylla kröfur ríkistjórnarinnar um að 90% stoppistöðva uppfylli hönnunar- og öryggiskröfur,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.
Þar kemur einnig fram að alls teljist 66 stöðvar nothæfar fyrir hjólastólanotendur, 67 fyrir göngu-, arma- og handskerta, 139 fyrir þroskahamlaða og ekki nema 7 fyrir blinda og sjónskerta. Nánar má lesa um niðurstöðurnar og aðferðafræðina í skýrslunni sjálfri.
Auk þessarar skýrslu var sett upp vefsjá þar sem hægt verður að sjá staðsetningu stoppistöðva sem teknar voru út, auk upplýsinga um ástand aðkomu og yfirborðs, samkvæmt úttektarstöðlum Reykjavíkurborgar. Þar að auki er hægt að sjá hvaða fötlunarhópi stoppistöðin hentar. Vefsjáin getur nýst einstaklingum með fötlun sem huga að ferðalagi með Strætó um Ísland og einnig geta viðkomandi sveitarfélög nýtt vefsjána í ákvarðanatöku um endurbætur á stoppistöðvum innan sveitarfélagsins. Vefsjáin hefur verið afhent Strætó bs. til afnota á heimasíðu.
Prentútgáfa „Ástand stoppistöðva á landsvísu : Strætisvagnar á landsbyggðinni“ PDF
Textaútgáfa „Ástand stoppistöðva á landsvísu : Strætisvagnar á landsbyggðinni“