Afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar er ein af þeim úrbótum sem hægt er að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi, án þess að farið verði í kerfisbreytingar eða ljúka heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum.
„Krónu á móti krónu“ skerðing hittir það fólk verst sem hefur lægstu framfærsluna í íslensku samfélagi og ef stjórnvöld vilja vinna gegn fátækt ætti afnám hennar að vera eitt af þeirra fyrstu verkum. Til ÖBÍ leitar fólk daglega, sem er í mjög alvarlegri stöðu vegna þessara 100% skerðinga og má því með sanni segja að hér sé um kerfisbundið ofbeldi að ræða.
Ef skynsemi, réttlæti og vilji til að breyta til batnaðar ráða gjörðum stjórnvalda, hlýtur „krónu á móti krónu“ skerðingin að verða afnumin strax, þannig staðfestu stjórnvöld vilja til að tryggja samfélag fyrir alla í verki. Vilji er allt sem þarf.
ÖBÍ styður og leggur ríka áherslu á að frumvarp um afnám „krónu á móti krónu“ skerðinga verði að lögum. Afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar er ein af þeim leiðréttingum sem örorkulífeyrisþegar hafa kallað eftir í áraraðir. Ítarlega er fjallað um málið í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarpið.
Hvað ávinnst með samþykkt frumvarpsins?
- Fátæktargildra verður tekin út. Stór hópur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega er fastur í þeirri stöðu að tekjur sem þeir afla sér auka ekki ráðstöfunartekjur þeirra vegna „krónu á móti krónu“ skerðingar. Þetta bitnar verst á þeim sem hafa lægstu tekjurnar annars staðar frá. Þessir einstaklingar myndu loksins njóta þeirra tekna sem þeir afla sér.
- Einföldun kerfisins. Útfærsla framfærsluuppbótarinnar hefur flækt kerfið verulega, þar sem hún er á skjön við aðra bótaflokka. Kerfið yrði einfaldað talsvert með því að fella framfærsluuppbótina inn í tekjutrygginguna.
- Aldurstengd örorkuuppbót myndi hætta að skerða framfærsluuppbótina og næði þar með tilgangi sínum sem er m.a. að koma til móts við einstaklinga sem ná ekki að safna réttindum í lífeyrissjóð.
- Einstaklingar munu njóta greiðslna sem eiga að bæta stöðu fólks í ákveðnum aðstæðum, s.s. dánarbóta, mæðra- og feðralauna og styrkja. Þessar greiðslur lækka og/eða taka út framfærsluuppbótina nú. Þetta er því mikið réttlætismál.
- Lagabreytingin hvetur örorkulífeyrisþega til þátttöku á vinnumarkaði.