Skip to main content
Frétt

Sjúkraþjálfarar starfa ekki lengur eftir samningi við SÍ.

By 12. nóvember 2019No Comments
Samskipti sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands eru í uppnámi eftir að stofnunin tilkynnti einhliða 8. nóvember að sjúkraþjálfarar væru bundnir af ákvæðum rammasamnings næstu sex mánuði – þrátt fyrir að samningurinn hafi runnið út þann 31. janúar síðastliðinn. Sjúkraþjálfarar sætta sig ekki við að starfa áfram á samningi sem ekki hefur verið leiðréttur í 9 mánuði. Þetta gerist í framhaldi af því að boðað var opið útboð á þjónustu sjúkraþjálfara, sem þeir telja að verði skaðlegt fyrir sjúkraþjálfun í landinu. 

„Framganga Sjúkratrygginga ber keim af því að verið sé að refsa sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfurum fyrir að hafa efasemdir um það sé rétt að taka þátt í opnu útboði, sem var ávísun á fullkomna óvissu,” segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara. Sjúkratryggingar frestuðu útboði til 15. janúar eftir að mikil gagnrýni hafði komið fram um það hvernig að því var staðið. „Undir kvöld í gær barst síðan bréf frá forstjóra S.Í. Það reyndist  innihalda rangfærslur og hótanir í garð sjúkraþjálfara, sem ævinlega hafa hagað málflutningi sínum og ákvörðunum með hagsmuni skjólstæðinga í huga. Forstjórinn fullyrðir þvert á móti að sjúkraþjálfarar séu skeytingarlausir um hagsmuni sjúkratryggðra. Við undrumst þau ummæli, svo ekki sé meira sagt.”

Þrátt fyrir að sjúkraþjálfarar hafi boðist til að vera áfram í rafrænum samskiptum við S.Í., skjólstæðingum til hagræðis, véfengdi stofnunin rétt þeirra til að fara af samningi og hafa engar ráðstafanir verið gerðar til að gera aðilum kleift að vera í rafrænum samskiptum um endurgreiðsluhluta sjúklinga. „Við hörmum auðvitað þau óþægindi sem þessi ágreiningur við S.Í. getur haft á skjólstæðinga okkar. Sjúkraþjálfarar starfa því frá 12. nóvember samkvæmt eigin verðskrá og geta ekki haft milligöngu um sjálfvirka endurgreiðslu  með rafrænum hætti. Þess í stað verðum við að beina skjólstæðingum okkar til S.Í. varðandi endurgreiðslur, sem þeir eiga áfram rétt á lögum samkvæmt” segir Unnur.

Unnur Pétursdóttir segir að staðan sé erfið en órofa samstaða sé meðal sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara um að standa vörð um faglega hagsmuni og velferð skjólstæðinga sinna.

Í tölvupósti til ÖBÍ þykir Unni það miður að sjúkraþjálfarar þurfi nú að innheimta fullt gjald af skjólstæðingum sínum fyrir veitta þjónustu. Ennfremur að félagar í Félagi sjúkraþjálfara harmi að skjólstæðingar verði fyrir óþægindum en vísa ábyrgðinni til SÍ, sem tryggja eiga rétt sjúkratryggðra til sjúkraþjálfunar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins segir þetta vera slæmt ástand, sérstaklega þar sem þetta kemur nú ofan í deilu sérfræðilækna við Sjúkratrygginar, og öryrkjar þurfi að greiða nokkuð háar fjárhæðir í aukagjöld við komu til þeirra. Í ljósi umræðu um mikilvægi endurhæfingar er þetta slæmt, því öryrkjar geta illa staðið undir því að leggja út fyrir hlut Sjúkratrygginga.