Í stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar sagði að ætlunin hafi verið að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er ætlað að tryggja að hámarkskostnaður sjúklinga verði ekki hærri en 27.475 á ári fyrir almenna notendur en 18.317 kr. fyrir aldraða og öryrkja. Um þetta ríkti sátt sem byggði á samningum milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og fagstétta.
Síðan sérfræðilæknar og sjúkraþjálfarar sögðu upp samningum við SÍ hafa þeir innheimt komugjöld milliliðalaust af sjúklingum til að dekka það sem þeim finnst upp á vanta.
Könnun sem var unnin fyrir málefnahóp ÖBÍ um heilbrigðismál, leiðir í ljós að fagaðilar veiða með því gríðarlegar fjárhæðir upp úr vösum almennings, á meðan ríkið sparar. Í raun er því þak á greiðsluþátttöku sjúklinga blekkingarleikur. Almenningur greiðir þessum stéttum ríflega 1,7 milljarð á ári, til viðbótar greiðslum frá Sjúkratryggingum.