Meðal annars kemur fram að nærri 70% svarenda telja sitt sveitarfélag leggja of litla áherslu á þjónustu við fatlað fólk, og 42% vilja að ríkið taki að öllu eða mestu leyti yfir þjónustuna á ný. Þjónustu sem flutt var til sveitarfélaganna árið 2011.
Ríki eða sveitarfélög?
Spurt var hvort viðkomandi teldi að þjónusta við fatlað fólk ætti að vera á hendi ríkis eða sveitarfélaga.
Tilviljun réð, hvort svarendur fengu sem fyrsta valkost ríki, eða sveitarfélag. Niðurstöðurnar eru að 22,8% telja að þjónustan eigi að vera að öllu leiti á hendi ríkisins, 19,3% að mestu leiti, og 36,6% telja að þjónustan eigi að vera til jafns á hendi ríkis og sveitarfélaga. Aðeins 13,4% telja að hún eigi að vera að mestu leiti á hendi sveitarfélaga og einungis 7,9% telja að hún eigi að vera alfarið á hendi sveitarfélaganna.
Undanfarin misseri hefur umræðan um að þjónusta sveitarfélaganna við fatlað fólk sé talsvert van-fjármögnuð. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sagt að þessi fjárhæð gæti legið á bilinu 8 til 12 milljarða króna, ár hvert. Áhugavert er að velta fyrir sér hvort sú afstaða fólks sem hér birtist, að 42% telji að þjónustan eigi í raun að fara aftur til ríkisins, litist af þeirri umræðu.
Sama þjónusta í öllum sveitarfélögum?
Við spurðum hvort þátttakendum þætti mikilvægt að sveitarfélög veittu samræmda þjónustu, að sama þjónusta stæði til boða, hvar sem viðkomandi kysi að búa.
Niðurstöðurnar voru nokkuð afgerandi. Brotið niður í svarmöguleikana voru það 42,1% sem töldu það skipta öllu máli. 33,4% töldu það skipta miklu máli og 19,1% töldu það skipta frekar miklu máli. Samantekið eru það því 94,1% sem telja það skipta miklu eða öllu máli. Einungis 1,3% töldu það skipta litlu eða engu máli, og 4,1% hvorki né.
Sveitarfélög veita mjög mismunandi þjónustu, og reyndin verður oft sú að þeir sem þurfa á þjónustu að halda, neyðast oft til að flytja lögheimili sitt til að fá þá þjónustu sem þörf er á, eða, sem öllu verra er, geta ekki flutt úr sveitarfélaginu sem viðkomandi býr í, þó nærfjölskylda vilji flytja, vegna þess að þjónustan sem viðkomandi þarf, er ekki í boði á óska búsetustaðnum.
Aðgengi fatlaðs fólks að byggingum?
Í nýafstaðinni fundarherferð ÖBÍ um landið voru aðgengismál mörgum ofarlega í huga. Aðgengi er mjög vítt hugtak, og nær ekki aðeins til aðgengis að manngerðu umhverfi, þ.e. aðgengi hreyfihamlaðra, heldur ekki síður stafrænt aðgengi, aðgengi að upplýsingum, og að upplýsingar um mikilvæg málefni séu yfirhöfuð til.
Við spurðum hvort viðkomandi teldi aðgengi fyrir fatlað fólk vera gott eða slæmt í sínu sveitarfélagi. Svörin voru ekki mjög afgerandi, en svarendur skiptust nokkuð jafnt á þrjá svarmöguleika sem í boði voru af fimm, mjög gott, frekar gott og hvorki né. Mjög lítill hluti valdi gríðarlega gott, og það sama má segja um þá sem völdu mjög slæmt eða óviðunandi.
En þegar spurt var hvort viðkomandi teldi að komið yrði á virku eftirliti með því að byggingar uppfylli kröfur um aðgengi fyrir fatlað fólk, var niðurstaðan skýrari. 87,4% voru því hlynnt, 10,3% tóku í raun ekki afstöðu, en aðeins 2,3% voru því andvíg. Það er reynsla ÖBÍ að því miður sé það of algengt að veittir séu afslættir af kröfum byggingareglugerða þegar kemur að aðgengismálum, og allt of oft er það hinn dapri raunveruleiki að eftir að lokaúttekt fer fram, eru gerðar breytingar, annað hvort á byggingunni sjálfri, eða umhverfi hennar, sem dregur úr aðgengi.
Stjórnvöld, í samstarfi við ÖBÍ, hleyptu af stað átaki fyrir um ári síðan, þar sem gera átti gangskör að því að bæta aðgengi að opinberum byggingum í sveitarfélögum, og styðja sveitarfélögin til að ráða til sín aðgengisfulltrúa til að taka út stöðuna. Þegar þessi orð eru rituð hafa um 50 af 64 sveitarfélögum ráðið aðgengisfulltrúa, í mismunandi hlutfall stöðugilda. Sum í fullt starf, en önnur í hlutastarf. Víða hafa fatlaðir einstaklingar verið ráðnir til þessara starfa.
Börn með sérþarfir í leik- og grunnskólum
Skóli án aðgreiningar hefur, eins og svo margt sem við könnuðum afstöðu fólks til, verið mikið í umræðunni. Sumarið 2021 átti ÖBÍ í samstarfi við grasrótarhóp, leiddan af foreldrum, sem vildi vekja athygli á bágri stöðu margra barna í skólanum. Facebook síðan „Sagan okkar“ geymir margar átakanlegar sögur foreldra af líðan barna sinna í skólanum. Það var því eðlilegt að kanna hvernig landsmönnum þætti til hafa tekist.
Spurt var um hversu vel eða illa telur þú að almennir leik- og grunnskólar uppfylli þarfir nemenda með sérþarfir?
Í svörunum kemur fram talsverður munur milli skólastiga. Á leikskólastiginu erum við að standa okkur sæmilega. 43,8% telur að leikskólar uppfylli þarfir nemenda með sérþarfir frekar vel. 28% segja hvorki né, en 19,2% frekar illa. Lítill hluti svarenda telur að leikskólastigið sé að standa sig mjög vel eða mjög illa. Samanlagt eru það 48,7% sem telja að leikskólar séu að standa sig mjög eða frekar vel, en 23,5% illa eða frekar illa.
Það er aðeins annað upp á teningnum þegar kemur að grunnskóla. Þar telja aðeins 32% svarenda að grunnskólar séu að standa sig frekar vel, en 29,9% að þeir séu að standa sig frekar illa. Hlutfall þeirra sem svara með hvorki né, er það sama á báðum skólastigum. Hér eru það því 37% svarenda sem telja að grunnskólar séu að standa sig illa þegar kemur að þessu viðfangsefni, en aðeins 34,9% að þeir séu að standa sig vel.
Á ungt fólk heima á hjúkrunarheimilum … ?
Nýlega hélt Öryrkjabandalagið málþing undir yfirskriftinni „Ungt fólk á endastöð“ en upptöku af því má nálgast á þessum hlekk. Þar var til umræðu sú nöturlega staðreynd að um 150 einstaklingar yngri en 67 ára, búa á hjúkrunarheimili, mörg gegn sínum vilja. Ástæðan er yfirleitt sú að sú þjónusta sem viðkomandi fær, er talin sveitarfélaginu of dýr, og þetta því hagkvæmasta lausnin. Sá yngsti í þessum hóp er 25 ára.
Við leituðum afstöðu landsmanna til þessa álitaefnis og spurðum hvort viðkomandi teldi að fötluðu fólki með mikla þjónustuþörf, væri betur borgið á hjúkrunarheimili, eða á sínu eigin, og þá með viðeigandi þjónustu.
Svörin voru nokkuð eindregin. 45,1% töldu fötluðu fólki mun betur borgið á eigin heimili og 26% nokkuð betur borgið á eigin heimili með viðeigandi þjónustu. Samanlagt eru það því rúm 71% sem taka þessa afstöðu til málsins, en aðeins 17,4% telja þeim betur borgið á hjúkrunarheimili. 11,5% eru hlutlaus.
Félaglegt húsnæði fyrir fatlað fólk?
Húsnæðismál eru eitt af mikilvægari málum sem sveitarfélögin fást við. Þau hafa skipulagsvaldið, og stjórna því í raun hvað er byggt. Að eiga öruggt heimili er öllum afar mikilvægt, og það kemur skýrt fram í svörum þátttakenda við þeirri spurningu hvort þau teldu að sveitarfélag þeirra ætti að auka framboð af félagslegu húsnæði fyrir fatlað fólk.
29,1% svarenda eru því alfarið hlynnt, 29,7 mjög hlynnt og 25,7 frekar hlynnt. Samantekið eru það því 84,5% svarenda sem eru því hlynnt á einhvern hátt. Aðeins 3,3% svarenda voru því mótfallin. 12,2% voru hlutlaus.
Atvinnumál fólks með skerta starfsgetu?
Við spurðum líka út í atvinnumál. Hvort viðkomandi væri því hlynntur eða andvígur að hið opinbera, en sveitarfélög falla þar undir, fjölgi hlutastörfum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Niðurstaðan er skýr, það vilja landsmenn. 31,3% þeirra eru því alfarið hlynnt, 33,9 mjög hlynnt og 24,5 frekar hlynnt. Samanlagt eru það því 89,7% landsmanna sem eru því hlynnt að ríki og sveitarfélög fjölgi atvinnutækifærum fatlaðs fólks.
Í allri umræðu um fyrirhugaða endurskoðun á almannatryggingakerfinu hefur atvinnu þátttaka fatlaðs fólks verið fyrirferðarmikil. Það er skilningur ÖBÍ að ekki skorti á vilja þeirra sem yfirhöfum geta verið þátttakendur á vinnumarkaði, til að vinna, en störf við hæfi, eða með viðeigandi aðlögun, eru hreinlega ekki næg. Þar getur hið opinbera gengið á undan með góðu fordæmi, en vísbendingar eru um að hinn almenni vinnumarkaður sé að átta sig á því að í fötluðu fólki býr ónýttur auður, en ekki ónýtur. Enda sýna rannsóknir fram á það að fyrirtæki sem setur sér markvissa stefnu um að mannauður þess endurspegli margbreytileika samfélagsins, vegni fjárhagslega betur.
Könnunin náði til alls landsins, og úrtakið var 1.650 einstaklingar, svarhlutfall var 51%.