„Við sjáum að það er eitthvað verið að bæta í, en það dugar ekki til að laga stöðu okkar hóps. Við eigum eftir að setjast betur yfir þetta en auðvitað er frumvarpið vonbrigði,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til fjárlaga næsta árs, í samtali við Morgunblaðið.
„Við getum verið ánægð með að 900 milljónir séu veittar í heilbrigðishlutann og þarf af 500 milljónir til að leiðrétta tannlæknaþjónustuna.“
Fram kemur í frumvarpinu til að til standi að leggja fjóra milljarða króna í fyrirhugaða breytinga á almannatryggingum.
Þuríður Harpa bendir á að ekki liggi fyrir í hvað þeir fjármunir eigi að fara. „Við erum ekki farin að sjá hvað þetta raunverulega þýðir. Við vonuðumst eftir því að „krónu á móti krónu“ skerðingin yrði tekin út og við höfum talað lengi um það, sérstaklega eftir að ellilífeyrisþegar fengu sína leiðréttingu og þetta var afnumið hjá þeim. Við sjáum ekki í þessu frumvarpi að þeir ætli að afnema þetta hjá okkur.“
Í frétt Morgunblaðsins er jafnframt rætt við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar. Hún segir að gera þurfi miklu meira og nefnir til dæmis húsnæðisstuðning og persónuafslátt. Hvort tveggja á að hækka lítillega samkvæmt frumvarpinu. Sólveig anna segir að sé frumvarpið hugsað sem innlegg í kjaraviðræður, þá dugi ekki til þau skref sem stigin eru í frumvarpinu.