Skip to main content
AðgengiFrétt

Síðasti rampurinn vígður

Römpum upp

Síðasti rampurinn í verkefninu Römpum upp Ísland, sem ÖBÍ réttindasamtök eiga aðild að, var vígður fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands fyrir helgi. Verkefninu er því lokið en alls var 1.756 römpum komið upp um allt land til að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að byggingum.

Í upphafi stóð til að setja upp 1.000 rampa en markmiðið var hækkað í 1.500. Heildarfjöldi rampa fór sem sagt langt fram úr þeim áætlunum, sem er mikið fagnaðarefni. Verkefnið hófst haustið 2021 en lauk nú, ári á undan áætlun.

„Með því að vinna saman með ótal aðilum, alls staðar að úr samfélaginu, byggðum við 1.756 rampa. Það eru 1.756 staðir sem fólk sem notar hjólastól getur núna farið að borða, læra, hlæja, versla, kyssast, lifa. Gleðin var við stýrið alla ferðina og gleðin skilaði okkur miklu lengra en bjartsýnustu spár. Takk fyrir okkur,“ sagði Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi verkefnisins, í ávarpi við hátíðlega athöfn í háskólanum.