Skip to main content
Frétt

Setningarathöfn Paralympics í kvöld – fimm Íslendingar keppa á mótinu

Paralympics mótið hefst í París í dag með setningarathöfn klukkan 18:20. Setningarhátíðin verður í fyrsta sinn haldin fyrir utan leikvang og inni í miðri borg, eins og greint er frá á vef Hvata, tímarits Íþróttasambands fatlaðra. Búist er við um 65.000 áhorfendum.

Fimm íslenskir íþróttamenn keppa á Paralympics í ár. Ingeborg Eide Garðarsdóttir í kúluvarpi, Sonja Sigurðardóttir í 50m baksundi og 100m skriðsundi, Thelma Björg Björnsdóttir í 100m bringusundi, Róbert Ísak Jónsson í 100m flugsundi og Már Gunnarsson í 100m baksundi. Fánaberar íslenska hópsins verða þau Ingeborg og Már.

Keppendahópurinn mætti til Parísar á laugardag ásamt þjálfurum og aðstoðarfólki og hefur komið sér fyrir í Paralympics-þorpinu.

Róbert Ísak verður fyrstur Íslendinganna til að keppa á mótinu, en keppt verður í 100m flugsundi á morgun.

ÖBÍ réttindasamtök óska keppendum öllum velgengni á mótinu og hlakka til að fylgjast með framvindunni.

Dagskrá næstu daga er eftirfarandi:

  • 29. ágúst – Róbert Ísak Jónsson í 100m flugsundi
  • 31. ágúst – Ingeborg Eide Garðarsdóttir í kúluvarpi
  • 1. september – Már Gunnarsson í 100m baksundi
  • 1. september – Thelma Björg Björnsdóttir 100m bringusund
  • 2. september – Sonja Sigurðardóttir 50m baksund
  • 3. september – Sonja Sigurðardóttir 100m skriðsund