Skip to main content
Frétt

Segja tvöfaldan lás eiga að tryggja hækkunina

By 17. desember 2015No Comments
Fréttaskýring Ómars Friðriksson á mbl.is Hart er tekist á um þá ákvörðun að lífeyrisbætur hækki ekki afturvirkt líkt og laun sem samið var um á vinnumarkaðinum á umliðnum mánuðum.

Hart er tekist á um þá ákvörðun að lífeyrisbætur hækki ekki afturvirkt líkt og laun sem samið var um á vinnumarkaðinum á umliðnum mánuðum. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að deilan um afturvirkni snúist m.a. um túlkun á 69. grein laganna um almannatryggingar. Þar segir að bætur almannatrygginga, skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. „Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Ummæli lögskýringargagn

Ellen bendir á að launaþróun sé allt annað viðmið en launavísitala og segir að þegar þetta lagaákvæði var lögfest á árinu 1997 hafi Davíð Odds-son, þáverandi forsætisráðherra, sagt í andsvari á Alþingi að lífeyririnn ætti að fylgja vísitölu neysluverðs eða launaþróun eftir því hvort væri hærra. ,,Hann orðaði þetta þannig að þetta væri í raun og veru tvöfaldur lás fyrir örorkulífeyrisþega sem myndi tryggja þessa hækkun. Þetta var mjög skýrt orðað hjá honum,“ segir hún og bendir á að þessi ummæli forsætisráðherra við lögfestingu ákvæðisins séu lögskýringargagn, sem skipti miklu máli að sé framfylgt. Orðrétt sagði Davíð í andsvarinu sem Ellen vitnar til: ,,Við höfum þetta rýmra með þessari tengingu. Það á ekki að láta nægja að miða við neysluvísitöluna. Það á jafnframt að gæta þess að huga sér-staklega að og hafa viðmiðun á launaþróuninni og þá auðvitað er bara hægt að gera það þegar launaþróunin er vænlegri kostur en vísitala neysluverðs. Það gefur augaleið. Ég tel því að hér sé um tvöfaldan lás að ræða og ef ég ætti hjól, sem ég á ekki, þá myndi ég treysta mér til að læsa því með slíkum lásum,“ sagði Davíð í andsvarinu á Alþingi hinn 9. desember 1997.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði við umræður um fjárlagafrumvarpið í þinginu fyrir nokkrum dögum að skv. tillögum fjárlaganefndar við 2. umræðu mundu bætur almannatrygginga hækka um 9,7%. Þetta þýði að bætur einstaklings eða einhleypings sem býr einn verði ívið hærri en lágmarkslaun, eða 246.902 kr. með heimilisuppbót. Hækkunin taki mið af endurmetinni þjóðhagsspá Hagstofunnar í nóvember um þróun launavísitölu að frádregnu launaskriði. Meðallaunahækkun yfirstandandi árs umfram 3% hækkun bóta almannatrygginga í byrjun þessa árs sé innifalin í hækkuninni í fjárlögum ársins 2016. Sé 3% hækkunin tekin með nemi uppsöfnuð hækkun á þessum tveimur árum 13% og ef einnig sé litið til 3,6% hækkunar árið 2014 nemi uppsöfnuð hækkun 17,1%.

Ellen segir að 9,7% hækkun örorkulífeyris um næstu áramót skili lágri upphæð því prósentan er reiknað af svo lágum fjárhæðum. „Framfærslan fer úr 172 þúsund krónum í um 186 þúsund krónur. Það lifir enginn af 186 þúsund krónum á Íslandi. Það eru engin viðmið í velferðarráðuneytinu, sem segja að fólk geti lifað af þessu hér á landi. Örorkulífeyrisþegar nota um 60% framfærslu til að mæta húsnæðiskostnaði. Í dag er staðan sú að örorkulífeyrisþegar þurfa að framfleyta sér og sínum á upphæðum sem samsvara um 37% af meðallaunum í landinu en það er langt undir fátæktarmörkum.

Ef lífeyrisþegar fengju afturvirkar greiðslur í takt við launaþróun í landinu frá 1. maí sl. myndu þær skila um það bil 150 þúsund kr. til hvers einstaklings „en greiðslurnar sem þjóðkjörnir fulltrúar fengu afturvirkt frá 1. mars hlaupa á fleiri hundrað þúsundum ef ekki milljónum til hvers einstaklings,“ segir hún og vísar til ákvörðunar kjararáðs í nóvember sl.

Afturvirk eingreiðsla 2011

Nokkuð mismunandi hefur verið staðið að hækkun bóta í kjölfar kjarasamninga á umliðnum árum en yfirleitt hafa bætur verið tengdar niðurstöðu samninga. Þegar samið var á vinnumarkaði í maí 2011 fengu lífeyrisþegar og atvinnuleitendur hliðstæðar hækkanir 1. júní og samið var um og afturvirka hækkun með 50 þúsund kr. eingreiðslu fyrir tímabilið frá 1. mars til 31. maí.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýnir að ekki er um afturvirkni að ræða í fjárlagafrumvarpinu núna á sama tíma og fyrir liggur samkomulag um sameiginlega launastefnu til ársloka 2018 og samkomulag um aðgerðir fyrir þá tekjulægstu. Það byggist að hluta til á niðurstöðu gerðardóms, sem hafi úrskurðað á grundvelli þeirra kjarasamninga sem ríkið hefur staðið að. Síðan komi kjararáð og telji eðlilegt að hið sama eigi við um kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn. ,,Þá eru öryrkjar, aldraðir og atvinnulausir eini hópurinn sem skilinn er eftir. Það nær ekki nokkurri átt,“ segir hann.