Samtök um íslenska máltækni (SÍM) hafa sett í loftið heimasíðuna samromur.is. Verkefnið er unnið í samvinnu við Almannaheill og er tilgangurinn að safna raddsýnum íslendinga til þróunar raddgreini á íslensku.
Íslenska er einstakt tungumál sem hefur breyst minna en flest önnur mál undanfarin þúsund ár. Vegna örra tæknibreytinga er þó hætt við því að hún eigi undir högg að sækja en mörg okkar eiga nú þegar samskipti við tölvur og ýmis tæki á erlendu máli. Ef við kennum tölvum að tala og skilja íslensku aukum við líkurnar á því að tungumálið okkar lifi áfram og eflist í stað þess að láta undan síga. Þetta er á okkar valdi.
Að verkefninu koma íslenskir háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök, sem munu á næstu árum þróa nauðsynlega innviði fyrir hugbúnað sem skilur og talar íslensku. Samrómur verður hluti af þessu verkefni, opið gagnasafn raddsýna fyrir íslensku sem hver sem getur notað til þess að þróa sínar máltæknilausnir. Með þessu á að tryggja öryggi íslenskunnar á stafrænum tímum.
Þegar þetta er skrifað hafa 37 klukkustundir af lestri verið hljóðritaðar, og 19 klukkustundir verið staðfestar. Verkefnið er í raun tvíþætt. Annars vegar hljóðrita þátttakendur ákveðna texta, beint af tölvunni sinni, og hins vegar hlusta á upptökur af lestri annara, og staðfesta hvort rétt sé.
Verkefninu er ætlað að tryggja stað íslenskunnar í hinum stafræna heimi, en íslenskuleysi gervigreindar endurspeglar í raun þá áskorun að íslenskan er á undanhaldi í stafrænum heimi. Hröjð þróun tæknilegra lausna er á góðri leið með að útiloka íslensku á þessum vettvangi. Samrómur er samvinnuverkefni Almannaróms, Deloitte, Háskólans í Reykjavík og Nýsköpunarsjóðs námsmanna.