Þessi tímamót í lífi flestra ungmenna verða nú æ seinna. Þeir sem það geta, kjósa að búa heima eins lengi og kostur er, í mörgum tilvika þar til námi er lokið og jafnvel aðeins lengur. Það er nefnilega gott að búa frítt meðan t.d. safnað er fyrir inngöngumiðanum á fasteignamarkaðinn.
Allir foreldar vilja styðja og aðstoða börn sín eins og kostur er, það er djúpt í eðli þeirra og þykir almennt sjálfsagt. Einn hópur foreldra hefur þó ekki þennan rétt.
Búi foreldri við örorku og þarf þess vegna að reiða sig á framfærslu frá almannatryggingakerfinu, er því gert að vísa barni sínu á dyr á 18 ára afmælisdaginn. Undanþágu frá þessu er aðeins hægt að fá ef barnið er í skóla, þá frestast þessi brottrekstur um 2 ár.
Átján ára eiga flestir eftir eitt ár í menntaskóla, eftir að hann var styttur í þrjú ár. Síðan tekur við frekari sérmenntun, standi hugur til þess.
Á þeim tímamótum þurfa börn fatlaðra foreldra að standa á eigin fótum. Finna sér húsnæði, þau eru nefnilega orðin baggi á fötluðu foreldri, sem verður fyrir tekjuskerðingu búi ungmennið áfram í foreldrahúsum.
Viðurlögin við því að fatlað foreldri veiti barni sínu húsaskjól eru tekjumissir, ríkisvaldið tekur af heimilisuppbót sem getur hæst numið tæpum 54.000 kr fyrir skatt. Upphæðin sem þetta foreldri hefur til framfærslu sér og barni sínu er þá um 258.000 fyrir skatt.
Stjórnvöld telja að fatlað foreldri hafi svo mikið fjárhagslegt hagræði af því að búa með barni sínu og hafa þess vegna girt fyrir slíkt með reglugerð.
Ég þekki ekkert foreldri, fatlað sem ófatlað, sem telur fjárhagslegan ávinning af því að búa með barni sínu. Ég þekki hinsvegar marga ófatlaða foreldra sem styðja börn sín út í lífið, ekkert þeirra þarf að sæta því að ríkisvaldið segi þeim hvaða stuðning þau mega veita börnum sínum, hvað þá að ríkið skerði laun þeirra.
Ég skora á Ásmund Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra að standa með sjálfum sér, og afnema þessa reglugerð með öllu og leiðrétta þar með órétt sem börn, ungmenni og fatlaðir foreldrar hafa sætt.
Afnema reglugerð sem í raun gerir ríkinu kleift að mismuna börnum fatlaðra foreldra, þannig að foreldrarnir geti ekki stutt börn sín á kannski þann eina hátt sem þau annars gætu, að veita þeim húsaskjól.
Það er holur hljómur í tali stjórnmálamanna á tyllidögum að við höfum öll jöfn tækifæri. Að hér drjúpi jú smjör af hverju strái. Það er ekki öllum boðið í veisluna.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. mars 2021