Skip to main content
Frétt

Réttindi sem þú veist ekki af eru einskis virði

By 14. ágúst 2019No Comments

 

 
Fréttablaðið birti í vikunni frétt af móður þroskahamlaðs manns sem sveið að hafa greitt meira fyrir ýmsa þjónustu en hún þurfti, sökum þess að hún vissi ekki um raunveruleg réttindi sonar síns. Í fréttinni kemur einnig fram að Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hafi flutt tillögu þess efnis að allir borgarbúar sem ættu sértæk réttindi, yrðu upplýstir um þau með sértækum hætti. Tillaga hennar var felld.

 Á fundi formanns ÖBÍ með forsætisráðherra í janúar 2019, lagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir til að sett verði á fót embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og sjúklinga. Hlutverk embættisins væri að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki væri brugðist við. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á göt í íslenskri löggjöf um mannréttindi með hliðsjón af skuldbindingum alþjóðasáttmála.

„Þekking á eigin réttindum, er grundvallarforsenda fyrir eigin valdeflingu“.
Þetta eru hluti gilda norska umboðsmannsins, stofnun sambærileg þeirri sem ÖBÍ lagði til að yrði komið á fót. Norski umboðsmaðurinn starfar með víðara umboð, en á verksviði hans er jafnrétti í víðasta skilningi þess orðs.

En réttindi sem þú ekki þekkir gagnast þér ekki á nokkurn hátt. Það hefur lengi verið ljóst að heildstæða sýn og aðgengilegar upplýsingar er ekki að finna þegar kemur að réttindamálum fatlaðs fólks. Eins og staðan er í dag þarf að leita víða að réttindum sínum. Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar hefur tekið saman töluvert efni þar um, og einhverjar upplýsingar er að finna á vef Sjúkratrygginga Íslands. En það er langt frá því að vera tæmandi og því eru það nokkur vonbrigði að ekki hafi verið tekið betur undir málflutning Kolbrúnar Baldursdóttur borgarfulltrúa.Embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og sjúklinga gæti breytt miklu þarna um.

 ÖBÍ hefur lagt til að umboðsmaður fatlaðs fólks og sjúklinga gæti í fyllingu tímans starfað innan sérstakrar Mannréttindastofnunar. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er ítrekuð sú skylda aðildarþjóðanna að setja á laggirnar slíka stofnun til að gæta að mannréttindum þegnanna. Umboðsmaðurinn norski ber ábyrgð á eftirliti með því að norsk stjórnvöld standi við skyldur samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi kvenna, mismunun um kynþátta mismunun og samninginn um réttindi fatlaðs fólks. Hann skilar reglulega skýrslu til Sameinuðu þjóðanna og á að sjá til þess að norsk stjórnvöld fylgi eftir þeim skyldum sem samningarnir veita.

 Það sem birtist okkur í þessari frétt er staðfesting þess að við svo búið verður ekki unað.