Skip to main content
AðgengiFrétt

Ræddi stöðu fatlaðs fólks í hamförum á ráðstefnu í Kaupmannahöfn

image00013

Eiður Welding, formaður UngÖBÍ og stjórnarmaður hjá ÖBÍ réttindasamtökum, hélt erindi á Nordens dag ráðstefnunni um mikilvægi þess að gleyma ekki fötluðu fólki þegar hörmungar ríða yfir, til dæmis náttúruhamfarir eða stríð.

Ráðstefnan, sem var á vegum Norræna ráðherraráðsins, var haldin fyrr í mánuðinum í Kaupmannahöfn.

Í ræðu sinni sagði Eiður að undanfarin ár hafi sýnt glögglega fram á mikilvægi þess að vera reiðubúin undir hamfarir eða ófriðarástand.

Rakti hann söguna af rýmingu Gríndavíkur þar sem engar áætlanir voru til staðar hvað varðaði fatlað fólk.

„Ímyndið ykkur tilfinninguna þegar þið þurfið að yfirgefa heimili ykkar í hamfaraástandi. Þið vitið ekki almennilega hvað er í gangi og hver næstu skref eiga að vera, af því upplýsingarnar eru ekki aðgengilegar fyrir ykkur. Þið eruð skilin út undan og það gerir ykkur hrædd og reið,“ sagði Eiður.

Þá sagði hann að ÖBÍ réttindasamtök hafi í kjölfarið átt í samtali og samráði við yfirvöld um áætlanagerð til að tryggja að tillit sé tekið til fatlaðs fólks í aðstæðum sem þessum.