Öryrkjabandalag Íslands fagnar þeirri ákvörðun félagsmálaráðherra Eyglóar Harðardóttur að hverfa frá ákvæði um starfsgetumat sem var að finna í frumvarpsdrögum um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem enn á þó eftir að leggja fyrir Alþingi. Ráðherra hefur þar með tekið til greina faglegar athugasemdir ÖBÍ sem komu fram í umsögn bandalagsins um frumvarpsdrögin. Því ber að fagna að ráðherra hafi byggt ákvörðun sína á sérfræðiþekkingu í þessum mikilvæga málaflokki.
Í umsögn ÖBÍ um frumvarpsdrögin var gerð athugasemd við þá staðreynd að starfsgetumatið væri ekki nægilega vel skilgreint heldur ætti þróunarteymi að þróa verkefnið „samstarfsverkefni um starfsgetumat“ samfara því að nýju fólki yrði beint inn í verkefnið. Þá var óljóst hvort og þá hvernig breytingar yrðu á lífeyrisgreiðslum í kjölfar starfsgetumats auk fjölda annarra óvissuþátta sem koma fram í umsögn ÖBÍ og má lesa hér.
ÖBÍ hefur alla tíð verið reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um málefni er varða örorkulífeyrisþega og ítrekað boðið upp á slíkt samstarf. ÖBÍ hefur gert tillögur að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess, í skýrslunni Virkt samfélag sem má finna hér.
En um leið og fagna beri þeirri ákvörðun félagsmálaráðherra að taka til greina athugasemdir ÖBÍ og fella út ákvæði um starfsgetumat í frumvarpinu verður að hafa í huga að enn er óvíst hvort frekari breytingar hafi verið gerðar á frumvarpsdrögunum. Breytt drög hafa ekki verið birt opinberlega og því er ekki vitað, þegar þetta er skrifað, hvort einhverjar breytingar verði gerðar á kjörum örorkulífeyrisþega.
Allir fulltrúar í nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar, Pétursnefndinni svokölluðu, voru sammála um að nauðsynlegt væri að taka út krónu-á-móti-krónu skerðinguna fyrir alla lífeyrisþega. Í frumvarpsdrögunum var einungis lagt til að það yrði gert fyrir ellilífeyrisþega en ekki örorkulífeyrisþega. Króna-á-móti-krónu skerðingu felst í því að sérstök framfærsluuppbót skerðist um þá upphæð sem lífeyrisþegar fá í öðrum tekjum.
Telur ÖBÍ að besta leiðin til að afnema þessa skerðingu væri að fella sérstaka framfærsluuppbót inn í tekjutrygginguna fyrir alla lífeyrisþega ásamt því að frítekjumörk og skerðingahlutfall yrðu áfram eins og í núverandi kerfi fyrst um sinn, þ.e. færu ekki úr um 38,35% upp í 45% eins og lagt var til fyrir ellilífeyrisþega í frumvarpsdrögunum.
Þetta væri einföld aðgerð sem mikilvægt væri að ná í gegn áður en þingi lýkur fyrir kosningar í næsta mánuði. Það væri jákvætt og gott skref í átt að bættum kjörum örorkulífeyrisþega og yrði hvatning til atvinnuþátttöku hjá þeim sem það geta.