Handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða mega leggja bílum sínum í gjaldskyld bílastæði án greiðslu, óháð því hvort stæðin eru rekin af hinu opinbera eða einkaaðilum. Þetta kemur skýrt fram í nýlegu svari innviðaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur.
ÖBÍ réttindasamtök hafa lengi haldið þessu fram og fylgt því eftir, enda stendur þetta skýrt í umferðarlögum. Reykjavíkurborg hefur látið reyna á að rukka handhafa stæðiskorta í bílastæðahúsum sínum en urðu að láta af því, meðal annars vegna þrýstings frá ÖBÍ.
Einkarekstraraðilar hafa reynt að halda því fram að löggjöfin eigi ekki við um þeirra bílastæði. Miðað við svar ráðherra er hins vegar alveg ljóst að svo sé:
„Í 2. mgr. 87. gr. segir að handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða sé að nánari skilyrðum uppfylltum heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu. Af framangreindu leiðir að ákvæðið gildir um bifreiðastæði sem stendur almenningi opið til afnota. Að því sögðu er það skilningur ráðuneytisins að með ákvæði 2. mgr. 87. gr. hafi vilji löggjafans, í samræmi við skýrt orðalag ákvæðisins, staðið til þess að greiða götu hreyfihamlaðra og undanþiggja þá greiðsluskyldu í öllum gjaldskyldum bifreiðastæðum sem boðin eru almenningi til afnota óháð rekstrarformi.“
Í svari ráðherra segir einnig að fólk sem telur að það hafi ranglega verið rukkað geti óskað eftir endurupptöku „en ákvörðun um innheimtu gjalds með vísan til 86. gr. umferðarlaga verður skv. 4. mgr. 109. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr., ekki borin undir æðra stjórnvald. Þá má eftir atvikum leita til umboðsmanns Alþingis. Önnur úrræði eru einkaréttarlegs eðlis“.