Skip to main content
Frétt

Óviðunandi staða fatlaðs fólks í hamförum rædd

By 19. september 2024No Comments

Fötluðu fólki er ekki borgið í hamförum enda gera viðbragðskerfin ekki nægilega vel ráð fyrir því. Það var rauði þráðurinn í umræðum á fundi stjórnvalda og fötlunarsamtaka frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum um í Tallinn í vikunni. Stefán Vilbergsson tók þátt í fundinum fyrir hönd ÖBÍ réttindasamtaka og Anna Klara Georgsdóttir fyrir hönd Félagsmálaráðuneytisins og gerðu grein fyrir reynslunni af rýmingunni í Grindavík.

Öll eigum við að geta komist í öruggt skjól í hamförum og viðbragðsáætlanir þurfa að gera ráð því óháð aðstæðum. Þessi skilyrði eru hvergi nægilega vel uppfyllt, en þrátt fyrir að kerfin séu alls staðar vanþróuð á jákvæð þróun sér víða stað. Sérstaklega er áhugavert að horfa til þróunarinnar í Litháen þar sem lögum um almannavarnir hefur nýverið breytt með hagsmuni fatlaðs fólks í huga, auk þess sem ýmsum verkefnum hefur verið hrint af stað til að tryggja betur öryggi fatlaðs fólks hamförum í góðri samvinnu stjórnvalda og fötlunarsamtakanna.

Sú þróun er að mörgu leyti sambærileg við þá sem hefur verið að eiga sér stað undanfarið á Íslandi og getur verið fyrirmynd við endurmótun okkar öryggiskerfa í framtíðinni. ÖBÍ hefur átt ágæta fundi með Almannavörnum og stjórnvöldum frá fyrra sumri og vakið athygli á því að íslensku almannavarnarlögin gera ekki sérstaklega ráð fyrir fötluðu fólki og viðbragðsáætlanirnar eru ekki nægilega góðar. Að hálfu ÖBÍ hefur meðal annars verið lögð áhersla á að fólk geti skráð sig og sínar þarfir í miðlægan grunn, að þjálfun viðbragðsaðila verði bætt, búnaður endurnýjaður og tilkynningar verði alltaf á aðgengilegu formi fyrir öll.

Áætlað er að leggja fram frumvarp til breytinga á Almannavarnarlögum í október og ÖBÍ væntir þess að réttindi fatlaðs fólks verði sérstaklega tiltekin sem sýni sig í tryggari viðbragðsáætlunum þegar fram líða stundir. Þar sem einnig er áætlað að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í haust verður sú krafa enn sterkari.

Enda segir í 11. gr.: „Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.“