Blindrafélagið skorar á stjórnvöld að tryggja framfærslu og raunverulegt aðgengi fatlaðs fólks að vinnumarkaði. Félagið bendir á að reynslan erlendis frá af svokölluðu starfsgetumati sé ekki góð og að endurskoða þurfi allar slíkar hugmyndir. ÖBÍ bendir í því sambandi á að Alþýðusamband Íslands hefur tekið undir með ÖBÍ um að leggjast gegn upptöku starfsgetumats. Blindrafélagið hvetur einnig til þess að hin illræmda krónu-á-móti-krónu skerðing verði afnumin. Áskorun félagsfundar í Blindrafélaginu fer hér á eftir:
Öruggt þjóðfélag – örugg framfærsla
Félagsfundur Blindrafélagsins haldinn 21. febrúar 2019 skorar á íslensk stjórnvöld að tryggja fötluðu fólki viðunandi framfærslu með því að tryggja þeim raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði til jafns við aðra og með því að tryggja örugga afkomu fyrir þá sem reiða sig á almannatryggingar sér til framfærslu.
Um þessar mundir stendur yfir heildarendurskoðun á almannatryggingarkerfinu með hliðsjón af hugmynda stjórnvalda um nýtt starfsgetumat.
Blindrafélagið fagnar því að stjórnvöld skuli leggja áherslu á málefni fatlaðra með þessu móti en ítrekar jafnframt að öll slík vinna skuli ávallt fara fram með hagsmuni og sjálfsákvörðunarrétt fatlaðra að leiðarljósi. Það er því grundvallarkrafa að allt starf um framtíðar atvinnuumhverfi fatlaðra sé byggt á Sáttmála Sameinuðu Þjóðana um réttindi fatlaðs fólks og í virku samráði við hagsmunafélög fatlaðra.
Staða málaflokksins er í dag ekki góð, þar sem aðgengi að vinnumarkaði er takmarkað og þeir sem þurfa að reiða sig á framfærslu hins opinbera lenda í fátæktargildru skerðinga.
Reynsla nágrannalanda okkar af svokölluðu starfsgetumati er ekki jákvæð og virðist slíkt kerfi ekki hafa borið gæfu til þess að gera atvinnumarkaðinn aðgengilegri né heldur hækka heildartekjur fatlaðra. Það virðist því vera borðleggjandi að endurskoða þessar hugmyndir í ljósi þeirrar reynslu sem hlotist hefur til að mynda á Bretlandi og í Danmörku.
Á meðan unnið er að því að þróa slíkt kerfi er ekkert því til fyrirstöðu að þingheimur afnemi krónu á móti krónu skerðinguna. Það er heldur engin ástæða til þess að bíða lengur með að gera ríkari kröfur til aðila á vinnumarkaði um að tryggja raunverulegt aðgengi að vinnu á réttlátum kjörum og forsendum.
Blindrafélagið hvetur stjórnvöld til að tryggja fjármagn í vinnumarkaðsaðgerðir sem að gera vinnuveitundum kleift að gera allar ráðstafanir sem þarf til að gera viðeigandi aðlögun fyrir blinda og sjónskerta. En kostnaður við slíka aðlögun er ein stærsta hindrunin sem okkar hópur rekur sig á á vinnumarkaði í dag. Jafnframt eru atvinnurekendur hvattir til að skipuleggja störf þannig að þau henti fólki með skerta starfsgetu og tryggja framboð af slíkum störfum.
Blindir og sjónskertir á Íslandi eru virkari á vinnumarkaði en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Þessi hópur sinnir fjölbreyttum störfum og tekur virkan þátt í verðmætasköpun á Íslandi en það er ekki sjálfgefið. TIl þess að styðja við þennan hóp og gera honum kleift að sinna vinnu, lengur en ella, þarf að afnema skerðingar og skapa betri möguleika á stuðningi til virkni.
Stjórn Blindrafélagsins