Katrín hóf svar sitt á að benda á að þó afkoma ríkissjóðs væri betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, væri samt gert ráð fyrir halla upp á um 170 milljarða á þessu ári. Ríkisstjórnin sé að gefa sér tíma til að vaxa út úr kreppunni, og það sé megin skýring á því að við erum ekki að sjá útgjaldaaukningu í fjárlagafrumvarpinu til þessa málaflokks.
Katrín sagði að þetta væri að sjálfsögðu bara fyrsta skref af mörgum, en mikilvægasta verkefnið væri að endurskoða kerfi almannatrygginga. Því verkefni hafi ekki verið lokið á síðasta kjörtímabili, en verði að ljúka á núverandi kjörtímabili, til að gera kerfið réttlátara, gegnsærra og tryggja afkomu þeirra sem höllustum fæti standa en, „framkalla líka rétta hvata til aukinnar virkni og þátttöku þeirra sem það geta“
Katrín sagðist binda vonir við að nýr félagsmálaráðherra myndi eiga gott samráð við Alþingi því að þessi mál hafi verið rædd „í óteljandi skipti“ og sagðist vera viss um að þingmenn gætu náð samstöðu um þetta mikilvæga verkefni.
Orðaskipti Jóhanns Páls Jóhannssonar og Bjarna Benediktssonar.
Í umræðum um ýmsar breytingar vegna fjárlga, svokölluðum bandorm, átti Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu, orðastað við fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, um frítekjumark atvinnutekna. Jóhann spurðu ráðherra hvort hann gæti hugsað sér að hækka frítekjumark öryrkja til jafns við frítekjumark ellilífeyrisþega, til að fólk með skerta starfsgetu gæti sótt sér kjarabætur með vinnu. Hér vitnaði þingmaðurinn í kannanir sem Öryrkjabandalagið hefur gert þar sem vilji fólks með skerta starfsgetu til að taka þátt á vinnumarkaði kemur skýrt fram, en á sama tíma er það ótti við skerðingar sem er helsta hindrunin.
Fjármálaráðherra svaraði á þá leið að hann hefði margoft lagt til breytingar á kerfinu á þann hátt að endurkomuleið í eldra kerfi yrði tryggð, ef þátttaka á vinnumarkaði gengi ekki upp. Hann sagði samanburð á frítekjumörkum elli og örorkulífeyrisþega ekki samanburðarhæf vegna þess munar sem er nú á kerfunum, eftir kerfisbreytingu á ellilífeyri 2016.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að lokið skuli við endurskoðun á kerfi almannatrygginga á kjörtímabilinu. Öryrkjabandalagið hefur lýst sig reiðubúið til þess verks.