Laugardaginn 8. október síðastliðinn bauð Öryrkjabandalag Íslands fulltrúum allra framboða, sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 29. október næstkomandi, til opins fundar á Grand hóteli. Rætt var um þau mál sem helst brenna á félagsfólki í aðildarfélögum ÖBÍ. Upptaka af fundinum er aðgengileg hér.
Öll 12 framboðin voru með fulltrúa á fundinum. Þeir voru:
Ásta Dís Guðjónsdóttir fyrir Dögun
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fyrir Framsóknarflokkinn
Guðmundur Magnússon fyrir Alþýðufylkinguna
Hanna Katrín Friðriksson fyrir Viðreisn
Inga Sæland fyrir Flokk fólksins
Jón Þór Ólafsson fyrir Pírata
Júlíus Valdimarsson fyrir Húmanistaflokkinn
Óli Björn Kárason fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fyrir Samfylkinguna
Sigurlaug Oddný Björnsdóttir fyrir Íslensku þjóðfylkinguna
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir fyrir Bjarta framtíð
Steinunn Þóra Árnadóttir fyrir Vinstri græna
Fimm spurningar voru lagðar fyrir frambjóðendur:
- Telur þú að einstaklingstekjur upp á 296 þúsund krónur eftir skatt dugi til framfærslu í hverjum mánuði? (upphæðin byggir á framfærsluviðmiði Umboðsmanns skuldara að viðbættum húsnæðiskostnaði og er talsvert hærra en þær greiðslur sem örorkulífeyrisþegar fá í dag).
- Á að umbuna eða koma upp hvatningarkerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir sem ráða til starfa fólk með skerta starfsgetu?
- Á að tryggja með lögum að sveitarfélögum sé skylt að veita fötluðu fólki, óháð aldri, akstursþjónustu svo að það geti farið allra sinna ferða?
- Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er þjónustuform þar sem fatlað fólk stýrir sjálft hvernig aðstoð er skipulögð, hvenær hún er veitt, hver veitir hana og hvar hún er veitt. NPA gerir fötluðu fólki jafnframt kleift að ráða hvar og með hverjum það býr. Á að tryggja með lögum rétt fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar?
- Á sú heilbrigðisþjónusta sem ríkið niðurgreiðir í dag, s.s. þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérfræðilækna og læknisfræðilegar rannsóknir, að vera gjaldfrjáls?
Í lok fundar voru kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar sem Gallup vann fyrir ÖBÍ þar sem sömu spurningar voru lagðar fyrir kjósendur. Þar kom fram að:
- 59,7% eru ósammála því að einstaklingstekjur upp á 296 þúsund krónur eftir skatt myndu nægja til framfærslu í hverjum mánuði. Taka skal fram að í nánari greiningu kemur fram yngsti og elsti aldurshópurinn telja þessa upphæð duga. Með upphæðinni er miðað við framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara að viðbættum húsnæðiskostnaði.
- 78,7% eru hlynnt því að umbuna eigi fyrirtækjum og stofnunum sem ráða til starfa fólk með skerta starfsgetu.
- 86,6% eru hlynnt því að tryggja skuli með lögum að sveitarfélögum sé skylt að veita fötluðu fólki, óháð aldri, akstursþjónustu svo að það geti farið allra sinna ferða.
- 81,1% eru hlynnt því að tryggja skuli með lögum rétt fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
- 77,1% eru hlynnt því að sú heilbrigðisþjónusta sem ríkið niðurgreiði í dag, s.s. þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérfræðilækna og læknisfræðilegra rannsókna, verði gjaldfrjáls.