Hinn 1. október sl. féll dómur í Landsrétti í máli einstaklings gegn Tryggingastofnun ríkisins. Ágreiningur málsins laut að skerðingu sérstakrar uppbótar á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Þessi uppbót greiðist eingöngu þeim örorkulífeyrisþegum sem hafa tekjur undir framfærsluviðmiði laganna og geta ekki framfleytt sér án hennar. Sérstaka uppbótin á þannig að tryggja örorkulífeyrisþegum tilteknar lágmarkstekjur sem löggjafinn hefur ákveðið að enginn örorkulífeyrisþegi skuli lenda undir (nú 265.044 kr. á mánuði).
Rétt er að leggja sérstaka áherslu á þetta eðli uppbótarinnar og þá staðreynd að viðtakendur hennar er tekjulægsti hópur örorkulífeyrisþega. Fullyrða má að einstaklingar í þeim hópi búa við sára fátækt og eiga almennt ekki aðra möguleika til framfærslu en þá aðstoð sem kveðið er á um í lögunum.
Með dómi Landsréttar er því slegið föstu að skerðing sérstakrar uppbótar vegna fyrri búsetu örorkulífeyrisþega erlendis hafi verið ólögmæt. Það leiðir af þessari niðurstöðu að ráðherra hefur ekki gætt þess að tryggja þessum hópi örorkulífeyrisþega þau réttindi sem Alþingi hefur mælt fyrir um í lögum heldur þvert á móti skert þau niður fyrir lögbundið lágmark með reglugerð. Afleiðing þessarar stjórnarframkvæmdar er sú að á annað þúsund einstaklinga hafa um margra ára skeið ekki fengið þá aðstoð til framfærslu sem löggjafinn hefur þó ákveðið að þeir skuli njóta.
Mikilvægt er að taka það skýrt fram að skerðing sérstakrar uppbótar byggir ekki á því að lágmarksframfærsla umræddra einstaklinga sé tryggð með öðrum hætti. Raunar liggur ekki fyrir neitt mat stjórnvalda á því að framfærsla þessara einstaklinga sé tryggð. Þvert á móti liggur fyrir að þeir sem verða fyrir skerðingunni eru einstaklingar sem ekki eru taldir geta framfleytt sér án þess að fá óskerta uppbót. Stjórnvöld eru því fyllilega meðvituð um að þeir einstaklingar sem fá skerta uppbót hafa ekki tekjur sem nægja til framfærslu. Stjórnvöld mega þannig vita að með ákvörðun sinni um skerðingu sérstakrar uppbótar hafa þau gert hlutaðeigandi einstaklingum að draga fram lífið á tekjum sem eru undir þeim framfærslumörkum sem löggjafinn hefur ákveðið.
Nú hafa bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu að þessi skerðing á sérstakri uppbót sé ólögmæt. Fyrir liggur að uppbætur hafa verið skertar með þessum ólögmæta hætti í mörg ár. Það mál sem dæmt var í Landsrétti 1. október sl. var höfðað fyrir fimm árum síðan. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu fyrir rúmum þremur árum að búsetuskerðingar væru ólögmætar. Þrátt fyrir það hefur skerðingunum verið haldið áfram og er enn.
Öryrkjabandalag Íslands telur að nú hljóti stjórnvöld að láta staðar numið en haldi ekki áfram að skerða með ólögmætum hætti lágmarksgreiðslur sem ætlaðar eru því fólki sem telst til allra fátækasta fólks á Íslandi. Þá hljóti stjórnvöld að hafa frumkvæði að því að bæta þeim sömu það sem Tryggingastofnun hefur ranglega af þeim tekið. Ef rétt á að vera er nauðsynlegt að slíkar bætur taki til alls þess tímabils sem hinar ólögmætu skerðingar hafa staðið yfir.
Sem heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi telur Öryrkjabandalagið sig eiga tilkall til skýrra svara ráðherra málaflokksins og forystumanna ríkisstjórnarinnar um hvernig ráðherra og ríkisstjórn hyggst bregðast við þeirri niðurstöðu dómstóla sem nú liggur fyrir.
Vænst er svara við þessu erindi á næstu dögum og að þeim fengnum verður tekin ákvörðun um hvert verði framhald þessa máls af hálfu Öryrkjabandalags Íslands.
Virðingarfyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður Öryrkjabandalags Íslands