Skip to main content
FréttKosningarMálþing og ráðstefnur

Öll sammála um þörf á úrbótum en misjöfn sýn á lausnir

By 7. nóvember 2024nóvember 27th, 2024No Comments

Fulltrúar þeirra tíu stjórnmálaflokka sem bjóða fram á landsvísu í komandi Alþingiskosningum voru samstíga um það að víða sé pottur brotinn í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi og mikil þörf á útbótum, á opnum fundi ÖBÍ réttindasamtaka með frambjóðendum.

Fundurinn fór fram á Grand Hótel, 5. nóvember 2024, undir yfirskriftinni Spurning um réttindi. Meginmarkmiðið með fundinum var að fá fram sýn stjórnmálaflokkanna á málefni fatlaðs fólks sem og að koma málaflokknum á dagskrá, enda brýn þörf á umbótum. Húsfyllir var á fundinum, sem einnig var streymt.

Ekki hægt að lifa af á lífeyri

Meðal annars voru frambjóðendurnir sammála um það að örorkulífeyrir sé of lágur. Sögðu þeir að það væri ýmist erfitt eða ógerlegt að lifa af á örorkulífeyri einum saman.

Lífeyrir er í dag breytilegur en almennt ekki hærri en um 360.000 krónur á mánuði eftir skatt, sem dugir afar skammt í þeirri dýrtíð sem ríkir nú á Íslandi. Þegar búið er að greiða fyrir húsnæði, samgöngur, net og síma þá er yfirleitt lítið sem ekkert eftir.

Aðgengi í víðu samhengi

Málefnahópar ÖBÍ réttindasamtaka unnu spurningar fyrir fundinn og spurðu meðal annars um hvernig eigi að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og að tryggja stafrænt aðgengi fatlaðs fólks.

Aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu almennt er í ólestri í dag. Of löng bið er eftir þjónustu og kostnaðarþátttaka of mikil, sérstaklega þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu. Frambjóðendur voru sammála um að úr þessu þyrfti að bæta, þótt nálgun flokkanna sé mismunandi.

Stafræn þróun hefur verið á ógnarhraða undanfarin misseri og þjónusta hins opinbera að miklu leyti færst yfir á netið. Þar hefur margt fatlað fólk setið eftir, enda til dæmis ekki mögulegt fyrir alla að nýta rafræn skilríki. Voru hvattir til að innleiða löggjöf sem tryggir stafrænt aðgengi óháð fötlum.

Þörf á úrbótum á öllum sviðum

En það voru ekki bara ofangreind mál sem um var rætt á fundinum heldur var farið vítt og breytt yfir málaflokkinn. Almennt voru frambjóðendur samdóma um að víða væri pottur brotinn í málefnum fatlaðs fólks, þótt þeir hafi vissulega haft misjafna sýn á málaflokkinn.

Meðal annars sögðu fulltrúar flokkanna tíu að hækka þurfi lífeyri, eyða biðlistum, bæta aðgengi að vinnumarkaði og húsnæði, draga úr skerðingum lífeyris og fjölga NPA samningum. Þá þurfi að fylgja eftir breytingum á örorkulífeyriskerfinu sem samþykktar voru á Alþingi í haust og svo lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lengi hefur verið beðið eftir.

Áherslur ÖBÍ réttindasamtaka kynntar frambjóðendum

Í pallborði voru Guðbrandur Einarsson (C), Guðmundur Ingi Guðbrandsson (V), Þorsteinn Sæmundsson (M), Bryndís Haraldsdóttir (D), Ágústa Árnadóttir (L), Theodór Ingi Ólafsson (P), Jóhann Páll Jóhannsson (S), María Pétursdóttir (J), Inga Sæland (F) og Ágúst Bjarni Garðarsson (B).

ÖBÍ réttindasamtök vonast til þess að efndirnar verði góðar á næsta kjörtímabili. Samtökin afhentu fulltrúum flokkanna áherslur ÖBÍ fyrir kosningarnar. Þær eru í tíu liðum og spanna málaflokkinn allan.

Fundurinn var rit- og táknmálstúlkaður. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan sem hefst þegar 04:28 mínútur eru liðnar af útsendingu. Einnig er hægt að horfa eða hlusta á upptökuna á Vimeo: ÖBÍ Spurning um réttindi

» Aðgengilegar kosningar  » Áherslur ÖBÍ réttindasamtaka fyrir Alþingiskosningar 2024