Rannsókn sem unnin var í Kaupmannahafnarháskóla hefur sýnt fram á, að í stað þess að starfsgetumat, sem tekið var upp í Danmörku árið 2013, fjölgi öryrkjum á vinnumarkaði, hefur það leitt til þess að öryrkjar falla út úr almannatryggingakerfinu og þurfa að leita á náðir annara kerfa til að framfleyta sér vegna þess að þeir uppfylla ekki lengur skilyrði til bóta, en fá ekki vinnu þrátt fyrir starfsgetumat.
Rannsóknin náði til yfir 5000 einstaklinga í Danmörku á aldrinum 50-59 ára á árabilinu 2004 til 2015.
Almannatryggingakerfinu danska var breytt árið 2013 og starfsgetumat tekið upp. Tilgáta rannsakendanna var að áhrifin af breytingunum yrðu þau að öryrkjar fengju ekki starf í kjölfar starfsgetumats, en myndu missa rétt sinn til bóta. Niðurstaða rannsóknarinnar staðfestir þá kenningu, einstaklingar falla út úr almannatryggingakerfinu og enda á tímabundnum bótum eða í versta falli hafa enga framfærslu.
Í frétt A4, dönskum vefmiðli, er rætt við Natasju Koitzsch Jensen, aðjúnkt, sem er ein af rannsakendum. Hún segir að ekki sjáist þess merki í rannsókninni, að þeir sem fari gegnum starfsgetumat fái frekar vinnu, eftir að breytingunum var komið á. Þvert á móti endar fólk nú í meira mæli á tímabundnum bótum eða situr upp alveg tekjulaust. Á því tímabili sem var skoðað sést að almennt á fólk greiðari aðgang að vinnumarkaðnum en það sama verður ekki sagt um þá sem hafa farið í gegnum starfsgetumat.
Í Danmörku var starfsgetumati komið á undir ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt. Breytingarnar hertu til muna skilyrðin til rétts til almannatrygginga, en tilgangurinn var að halda fleirum á vinnumarkaði og þar með að þeir gætu séð fyrir sér.
Hins vegar er það ekki niðurstaðan samkvæmt þessari rannsókn, heldur falla fleiri út úr almannatryggingakerfinu án þess að fá starf við hæfi, en eiga ekki lengur rétt á örorkubótum. Þannig verður í raun tilfærsla milli kerfa, þar sem tímabundnar lausnir taka við, atvinnuleysisbætur, stuðningur sveitarfélaga o.s.frv, en ekki raun fækkun þeirra sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda.
Einn viðmælanda A4 lýsir því hvernig hann fór í gegnum starfsgetumat í Kaupmannahöfn, þar sem geta hans til að sinna þrifum var metin. Honum fannst sérkennilegt að meta getu hans til að sinna þrifum gegn greiðslu, þar sem hann fær aðstoð við að þrífa sitt eigið heimili, enda ófær um það.
Grunnurinn í danska kerfinu er sá að við áföll eða veikindi, verður það hlutverk sveitarfélaga að tryggja framfærslu fólks eftir að það hverfur af vinnumarkaði í lengri tíma en 22 vikur. Sú skylda hvílir á sveitarfélögunum í allt að þrjú ár, að uppfylltum ýmsum skilyrðum um þátttöku í virkniúrræðum, læknismeðferð og mati á starfsgetu.
Natascha segir jafnframt að á gögnum þeirra megi sjá þá heildarmynd að öryrkjar fái ekki starf við hæfi á vinnumarkaðnum, en þurfa að leita tímabundinna bóta, t.d. á vegum sveitarfélaga. „Breytingin gekk vel í þeim skilningi að það tókst að takmarka aðgang að örorkubótum en afleiðingarnar geta verið gríðarlega slæmar ef einstaklingar neyðast í enn meiri mæli til að leita í tímabundnar bætur, sem er það sem rannsókn okkar sýnir.“
Aðrar rannsóknir hafa að sögn Natöschu sýnt fram á tengsl aukins álags á viðkomandi við að falla út úr kerfi almannatrygginga og þurfa að leita á náðir tímabundinna fjárhagslegra lausna. Því fylgir aukin streita að falla út úr kerfinu, samtímis því sem einstaklingar eru að kljást við veikindi og/eða fötlun sína.
Rannsóknin er byggð á svörum frá 5.384 dönum á aldrinum 50 til 59 ára sem var skipt niður í þrjá hópa, heilbrigða, minniháttar heilbrigðisvandamál og svo þeirra sem glíma við mikil vandamál. Gögnin voru svo borin saman við gögn frá því fyrir innleiðingu starfsgetumatsins.
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar Danmerkur, undir forsæti Mette Fredriksen, sem var atvinnumálaráðherra, þegar starfsgetumat var innleitt, er nú lagt upp með gagnrýna endurskoðun á starfsgetumatinu. „Markmiðið er að bæta úr þeim hluta breytinganna á örorkubótakerfinu, sem því miður hefur haft í för með sér að fólk situr fast í kerfinu“ segir í stefnuyfirlýsingunni.
Eins og fyrr segir eru afleiðingarnar þær í Danmörku að fólk flyst einfaldlega milli kerfa. Missir rétt sinn til almannatrygginga, og þarf að reiða sig á aðstoð sveitarfélaga, sjúkradagpeninga og atvinnuleysibætur, eða hreinlega situr upp tekjulaust.
Nú nýlega steig fram félagsráðgjafi í Helsingör í fjölmiðlum og greindi frá því hvernig starfsfólki félagsþjónustu sveitarfélagsins hefði verið hvatt til að fækka fólki á þessari tilteknu framfærslu, þ.e. sjúkradagpeningum, með loforðum um ísbar fyrir starfsfólkið þegar ákveðnum fjölda væri náð. Það var sem sagt efnt til keppni meðal starfsfólks um að „lækna“ þá sem þiggja sjúkradagpeninga. Keppnin gekk svo langt að á skrifstofu eins yfirmannsins var komið fyrir fötu, þar sem félagsráðgjafar máttu setja í einn bolta í hvert sinn sem tókst að „tilkynna einn borgara heilbrigðan“. Einnig mátti setja bolta í fötuna ef tókst að koma einhverjum í starfsgetumat, hlutastarf eða á örorkubætur.
Lokaorð tölvupóstsins til félagsráðgjafanna voru „Hefjum keppni. Með íþróttakveðju.“
Eftir umfjöllun TV2 hefur verið ákveðið að stöðva „keppnina“.