ÖBÍ réttindasamtök fordæma aðgerðir stjórnvalda í máli Husseins Hussein, fatlaðs manns frá Írak, sem var handtekinn og svo vísað á brott til Grikklands í morgun. Eins og fram kemur í fjölmiðlum var Hussein handtekinn með vanvirðandi hætti án fyrirvara og fluttur frá Íslandi í ómannúðlegar og hættulegar aðstæður sem ógna munu heilsu hans og lífi.
Ítarlegar skýrslur liggja fyrir um bágborna stöðu flóttafólks á Grikklandi. Fatlað fólk er þar í sérstaklega viðkvæmri stöðu og stendur gjarnan utan heilbrigðiskerfisins.
Meðferð Husseins, sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum, vekur upp alvarlegar spurningar um framkvæmd stjórnvalda í þessu máli. Meðferðin virðist stangast á við landslög og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist. Til dæmis má nefna Mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem banna grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð á fólki.
Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna (SRFF) segir meðal annars í 14. grein að sé „fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.“
Íslandi ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þar með talin alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks.
Stjórnvöldum ber að tryggja fötluðu fólki aðgang að réttlátri málsmeðferð til jafns við aðra.
Í ljósi þess hversu lengi Hussein hefur dvalið á Íslandi verður að mati ÖBÍ að teljast gróft brot á meðalhófi að heimila honum ekki að gefa milliliðalaust skýrslu fyrir dómi í máli hans sem flutt verður 18. nóvember í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Í ljósi þessa alvarlega máls kalla ÖBÍ réttindasamtök tafarlaust eftir skýrum upplýsingum um verklagsreglur stjórnvalda sem varða málsmeðferð fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd og rökstuðningi um hvort aðgerðir í máli Husseins séu í samræmi við þær reglur.