ÖBÍ réttindasamtök fagna því að Alþingi hafi samþykkt lög um stofnun Mannréttindastofnunnar Íslands og óskar þjóðinni til hamingju með áfangann.
Með þessu verður uppfyllt Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, eins og skylda ber til samkvæmt 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
Stofnuninni ber að hafa eftirlit með framkvæmd SRFF og sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem og að hafa eftirlit með stöðu mannréttinda hér á landi almennt, svo fátt eitt sé nefnt.
Með því að Mannréttindastofnun sé komið á laggirnar er ekkert lengur sem kemur í veg fyrir að Alþingi lögfesti loksins Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það mikið fagnaðarefni.
ÖBÍ réttindasamtök hafa lagt höfuðáherslu á lögfestingu SRFF undanfarin misseri enda mun lögfesting þýða umtalsverða réttarbót fyrir fatlað fólk á Íslandi.