ÖBÍ réttindasamtök fagna því að stjórnvöld hafi náð samkomulagi við sérgreinalækna eftir langvarandi samningsleysi. Samningurinn sem var undirritaður í dag gildir í fimm ár og tekur gildi þann 1. september.
Sérgreinalæknar voru án samnings við sjúkratryggingar frá árslokum 2018 og bitnaði það einkum á notendum þjónustunnar. Þeir hafa því þurft að borga komugjöld, stundum nefnd „leiðréttingargjöld vegna samningsleysis“ sem hafa hlaupið á þúsundum króna.
Þessi komugjöld komu verst niður á þeim sem síst skyldi. Samkvæmt skýrslu ÖBÍ frá árinu 2020 nam heildarsumma greiddra komugjalda árið 2020 1,7 milljörðum króna. Miðað við má áætla að upphæfin hafi verið minnst fimm milljarðar króna á síðasta ári.
ÖBÍ réttindasamtök hafa lengi þrýst á gerð nýrra samninga við sérgreinalækna og er því ánægjulegt að það mál sé loks í höfn.
Enn á þó eftir að semja við sjúkraþjálfara en það samningsleysi bitnar einnig á notendum þjónustunnar. Það er brýnt að sá samningur sé gerður sem allra fyrst.
Sömuleiðis er mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að niðurgreiða sálfræðiþjónustu enda ljóst að stór hópur neitar sér um nauðsynlega þjónustu af fjárhagsástæðum.
Könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ vann fyrir ÖBÍ réttindasamtök og Rúnar Vilhjálmsson prófessor í vor sýnir að stór hluti fólks sem metið er með minnst 75% örorku frestar því að fara til læknis og sjúkraþjálfara og sækir ekki lyf sem því er ávísað. Að miklu leyti af fjárhagsástæðum. Þetta þarf að laga.
View this post on Instagram