Skip to main content
Frétt

ÖBÍ harmar ákvörðun kjararáðs

By 1. nóvember 2016No Comments

Öryrkjabandalag Íslands harmar þá ákvörðun kjararáðs að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands á sama tíma og örorkulífeyrisþegar hafa ekki fengið raunverulegar kjarabætur um árabil. Laun þessa hóps hafa því hækkað í tvígang á þessu ári. Hjá þingmönnum hefur þingfararkaup hækkað um kr. 389.164 á mánuði. Laun hjá forsætisráðherra hafa hækkað um kr. 630.492, hjá öðrum ráðherrum um kr. 568.848 og hjá forseta Íslands um kr. 670.170.

Á sama tíma hefur óskertur lífeyrir almannatrygginga hækkað um kr. 18.814 á mánuði og óskertur lífeyrir almannatrygginga með heimilisuppbót um kr. 21.832.

Íslendingar hafa lengi státað sig af því að vera lýðræðisríki og ríki mannréttinda. Í lýðræðisríki er lögð sú ábyrgð á kjörna fulltrúa að þeir vinni að almannahag og forgangsraði fjármunum. Þegar talað er um ríki mannréttinda er vísað til þess að allt fólk fái að lifa með reisn. Það er skylda ríkisins að tryggja að allir hafi nóg að bíta og brenna og að allir geti tekið þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.

Staðan í dag er því miður sú að samkvæmt nýjum rannsóknum lifa börn á Íslandi við skort. Íslenska ríkinu hefur ekki tekist að tryggja mannsæmandi framfærslu allra eða að tryggja það að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi. Grunnréttur fólks er ekki að fullu virtur.

Því vekur nýjasta hækkun kjararáðs furðu. Ótrúleg hækkun um nærri 45% skýtur skökku við á meðan hópur fólks í landinu býr við fátækt, börn líða skort og fatlað fólk er fast heima hjá sér og hefur ekki tækifæri til samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Ákvörðunin hefur vakið sterk viðbrögð og reiði á meðal fjölda örorkulífeyrisþega.

Með ákvörðuninni er ekki hægt að sjá að fjármunum sé ráðstafað í þágu mannréttinda. Hún kallar einnig á áskorun sem ný ríkisstjórn stendur frammi fyrir. Verður hún ríkisstjórn mannréttinda eða annarra hagsmuna? 

Hér með er skorað á nýja ríkisstjórn og nýkjörið Alþingi að fyrsta verk þeirra verði að sjá til þess að allir sitji við sama borð þegar kemur að kjarabótum og ekki síst örorkulífeyrisþegar.

Út frá ákvörðun kjararáðs hlýtur að vera gert ráð fyrir því að örorkulífeyrisþegar fái nú loks sambærilegar kjarabætur og ráðamenn þjóðarinnar. Þá er einsýnt að ákvörðunar kjararáðs verði til þess að ný ríkisstjórn muni gera gagngerar breytingar á 5 ára fjármálaáætlun sem sitjandi ríkisstjórn samþykkti fyrir árin 2017 til 2021.