Skip to main content
Frétt

Nýr tannlæknasamningur tekur gildi

By 3. september 2018No Comments

Nýr samningur um tannlæknaþjónustu við aldraða og öryrkja tók gildi 1. september. „Þetta er mikilvægur áfangi og fagnaðarefni að samningar náðust við Tannlæknafélagið með uppfærðri aðgerðaskrá,“ segir Emil Thóroddsen, formaður Málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál. Hann bendir á að stjórnvöld þurfi að gera betur.

Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn með undirritun sinni í velferðarráðuneytinu á föstudag, að viðstöddum Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formanni Landssambands eldri borgara og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni Öryrkjabandalags Íslands. Ráðherra og formennirnir tveir ræddu um efni samningsins, þýðingu hans fyrir þá sem hlut eiga að máli og áherslur í þessum málum til lengri tíma litið.

 „Ég lít svo á að við sem þjóð séum nú að ganga inn í nútímann í þessum efnum. Staða þessara mála gagnvart öldruðum og öryrkjum var okkur til vansa en er nú gjörbreytt, þótt við ætlum að gera enn betur“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, í umfjöllun á vef velferðarráðuneytisins. „Síðast en ekki síst er þetta mikilvægur liður í áformum stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, líkt og fjallað er um í sáttmála ríkisstjórnarinnar,“ segir Svandís.

Stjórnvöld verða að gera betur

Emil Thóroddssen formaður heilbrigðishóps ÖBÍÚtgjöld sjúkratrygginga til tannlækninga öryrkja og aldraða hafa verið 700 milljónir króna á ári. Þar sem engir samningar hafa verið við tannlækna hefur verðlagning þeirra ekki verið samræmd en greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hefur undanfarið numið að jafnaði um 27% af verði þjónustunnar. Nýi samningurinn tryggir samræmda verðlagningu og greiðsluhlutfall sjúkratrygginga hækkar í rúm 50% af kostnaði einstaklings, segir á vef ráðuneytisins.

Emil Thóroddssen bendir á að til að koma kostnaðarþátttöku lífeyrisþega í það horf sem stefnt var að, þurfi að gera betur. „Stefnan var að niðurgreiðsla ríkisins yrði 75% á móti 25% greiðsluþátttöku einstaklings og 100% fyrir tiltekna hópa. Hér er náð um 50% niðurgreiðslu ríkis. Við væntum þess að sjá málið klárað í næstu fjárlögum,“ segir Emil Thóroddsen í samtali við vef ÖBÍ.

Stefnt að 75% greiðsluþátttöku sjúkratrygginga

Fram kemur á vef velferðarráðuneytisins að heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp í byrjun þessa árs og fól honum að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag tannlæknaþjónustu við aldraða og öryrkja í samræmi við ákvörðun stjórnvalda um aukna fjármuni til málaflokksins. Á grundvelli þeirra tillagna fól ráðherra Sjúkratryggingum Íslands að vinna að samningum við tannlækna um þjónustuna. Stefnt var að því að niðurgreiðsla ríkisins yrði 75% á móti 25% greiðsluþátttöku einstaklings og 100% fyrir tiltekna hópa. Það fjármagn sem var til ráðstöfunar dugði ekki til að ná þessum markmiðum til fulls en vilji stendur til þess að auka greiðsluþátttökuna í skrefum þar til hún hefur náð 75% markmiðinu og var tillaga heilbrigðisráðherra þess efnis samþykkt í ríkisstjórn 31. ágúst sl.

Tannlæknaþjónusta við langveika á stofnunum verður þeim að kostnaðarlausu

Samkvæmt samningnum verður tannlæknaþjónusta öryrkja og aldraðra sem eru langveikir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunar­heimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum þeim að kostnaðarlausu. Hið sama gildir fyrir andlega þroskahamlaða einstaklinga 18 ára og eldri, þó með þeim fyrirvara að áður en til greiðslu kemur þarf að sækja sérstaklega um hana.

Skráning hjá tannlækni

Nýi samningurinn, eins og samningurinn um tannlækningar barna frá árinu 2013, byggir á því að hinn sjúkratryggði sé skráður hjá tannlækni sem boðar hann í reglubundið eftirlit. Þeir sem leitað hafa til tannlæknis eftir 1. janúar 2017 verða sjálfkrafa skráðir hjá honum. Aðrir geta óskað eftir skráningu þegar þeir fara næst til tannlæknis eða gengið sjálfir frá skráningu hjá tannlækni í Réttindagáttinni á vef Sjúkratrygginga Íslands.