Skip to main content
Frétt

Nýr samskiptastjóri ÖBÍ

By 17. ágúst 2016No Comments

Guðjón Helgason hefur tekið til starfa sem samskiptastjóri Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ).

Guðjón hefur starfað sem fréttamaður um langt skeið. Hann hóf störf á Fréttastofu Ríkisútvarpsins í júní 2002 og starfaði þar með hléum til ársloka 2004. Þá tók hann við starfi kynningar- og alþjóðafulltrúa hjá Kennaraháskóla Íslands. Í byrjun árs 2006 tók hann til starfa sem fréttamaður á sjónvarpsfréttastöðinni NFS sem rekin var af 365 miðlum. Hann varð síðar fréttamaður í erlendum fréttum á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi.is. Í september 2009 hóf hann störf sem fréttamaður í erlendum fréttum á sameinaðri fréttastofu RÚV. Guðjón starfaði einnig um skeið sem fréttaritari fyrir fréttaveituna Associated Press á Íslandi.

Guðjón lauk BA námi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2002 og meistaranámi í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Essex á Englandi 2005.

„Ég er afar spenntur fyrir því að fá að takast á við þetta krefjandi og áhugaverða verkefni og þakka það traust sem mér er sýnt með ráðningunni,“ segir Guðjón.

Öryrkjabandalag Íslands er hagsmuna- og mannréttindasamtök fatlaðs fólks, langveikra, örorkulífeyrisþega og aðstandenda þeirra. Aðildarfélög ÖBÍ eru 41 talsins og telja þau um 29.000 félagsmenn. Helstu verkefni Guðjóns snúa að útgáfumálum, viðburðum, samskiptum við fjölmiðla og upplýsingamiðlun hvers konar.

Hagvangur hafði umsjón með ráðningarferlinu en yfir 50 umsóknir bárust um starfið.

Um nýtt starf er að ræða sem er ætlað að efla starf ÖBÍ enn frekar.