Skip to main content
Frétt

Nú er tími til kominn! – Áskorun til stjórnmálaflokka um endurgreiðslur vegna tannlækninga

By 22. október 2017júní 6th, 2023No Comments

92,5% eru hlynnt niðurgreiðslu

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Öryrkjabandalag Íslands í þessu mánuði (október 2017) kemur fram að 92,5% svarenda eru hlynnt því að tannlækningar verði niðurgreiddar fyrir alla Íslendinga með sama hætti og önnur heilbrigðisþjónusta, s.s. þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa og sérfræðilækna. 4,4% voru því andvíg en 3,1% voru hvorki hlynnt því né andvíg.

Stundin leitaði viðbragða frá stjórnmálaflokkunum vegna áskorunar ÖBÍ, LEB og Tannlæknafélagsins og þau má lesa hér. Við bendum á að hægt er að lesa greinina í heild sinni með því að skrá sig inn á vef Stundarinnar. Hægt er að fá fjórar fríar greinar á mánuði á vef blaðsins.

NÁNAR UM FORSENDUR OG BAKGRUNN ÁSKORUNARINNAR:

90% hækkun verðlags

Lífeyrisþegar, aldraðir og börn fá endurgreiddan kostnað vegna tannlækninga frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). Greiðslurnar til lífeyrisþega og aldraðra hafa hins vegar staðið í stað í þrettán ár vegna þess að gjaldskráin[1] sem er grundvöllur þeirra hefur ekki verið uppfærð frá árinu 2004. Verðlag hefur hækkað um ríflega 90% á tímabilinu.

Endurgreiðslur óbreyttar frá 2004

Reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar, nr. 451/2013, á að tryggja öryrkjum og öldruðum endurgreiðslu kostnaðar vegna tannlæknaþjónustu, að ýmist 100%, 75% eða 50% hlutfalli af gjaldskrá SÍ, sbr. 6. gr. Þar sem reglugerðin var ófjármögnuð hafa þessar endurgreiðslur ekki skilað sér nema að litlum hluta. Raungreiðslur árið 2015 voru að meðaltali 43% (100%), 28% (75%) og 19% (50%).

Þar sem tannlæknar starfa á frjálsum markaði ákveða þeir sjálfir eigin verðskrá og því greiða lífeyrisþegar mismuninn á upphæðum þeirra og viðmiðunargjaldskrá SÍ. Þá er endurgreiðslan hlutfallslega lægri en viðmið SÍ segja til um. Samkvæmt könnun ASÍ árið 2016 voru  gjaldskrár tannlækna á höfuðborgarsvæðinu[2] „…í lang flestum tilvikum að meðaltali 150-200% hærri en viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga, og 50-100% hærri ef miðað er við lægstu gjaldskrár.“

Árið 2013 gerðu SÍ og Tannlæknafélag Íslands (TFÍ) með sér samning sem tryggði endurgreiðslu á tannlæknakostnaði barna í áföngum og verða greiðslur til síðasta aldurshópsins tryggðar frá 1. janúar 2018. Mun tannheilsa íslenskra barna aldrei hafa verið betri.[3] Á sama tíma fer tannheilsu aldraðra og öryrkja síhrakandi og er ástandið nú háalvarlegt.

Afleiðingarnar eru þær að að sífellt færri aldraðir og öryrkjar sækja sér tannlæknaþjónustu.

Þriðji hver fer ekki til tannlæknis

Niðurstöður nýrrar rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar prófessor leiddu í ljós að „um 35,7% fólks með líkamlega fötlun hafði hætt við heimsókn til tannlæknis eða frestað heimsókn.“[4]

Alvarlegt heilsufarsvandamál

Almennt slæm tannhirða og tannheilsa getur haft mikil áhrif til hins verra á andlegt og líkamlegt atgervi fólks. Lífeyrisþegar eru því áhættuhópur sökum frestunar á eftirliti og aðgerðum sem eykur kostnað við inngrip og aðra heilsutengda þætti. Afleiðingar þess að fara ekki til tannlæknis geta verið að fólk missi tennur sem annars væri hægt að bjarga og einnig geta bakteríur í munni farið út í blóðið og valdið hjarta- og æðasjúkdómum. Reglulegar tannlæknavitjanir eru því fyrirbyggjandi gagnvart öðrum sjúkdómum.

Aldraðir og öryrkjar hafa margir frestað för til tannlæknis vegna kostnaðar og eiga margir í miklum vanda vegna þess. Hafa misst tennur eða ekki sinnt viðgerðum.

Ráðamenn hafa lengi lofað að ganga til samninga við tannlækna og uppfæra gjaldskrá SÍ fyrir tannlækningar og skila lífeyrisþegum þeim endurgreiðslum sem þeir eiga inni.

Loforð án efnda

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sagði  í september 2016 að ríkið skuldaði eldri borgurum um 800 milljónir króna vegna mistaka þegar reglugerð um þátttöku í kostnaði við tannlækningar var samþykkt á Alþingi árið 2013. Í fréttum 23. ágúst og 13. september 2016 var farið yfir þessa stöðu og þar kom fram að Kristján Þór sagði að vinna stæði yfir í ráðuneytinu undanfarna mánuði í þeirri von að geta endurgreitt fólkinu. „Það er núna verið að reikna út þennan lið og raunar fleiri aðra sem við gerum ráð fyrir að geta kynnt á næstunni , hvernig verði gripið inn í þetta“, sagði Kristján Þór og vonaðist til að geta uppfyllt reglugerðina árið 2017.

Ekki var gert ráð fyrir endurgreiðslum til lífeyrisþega vegna tannlækninga í fjárlögum 2017 né í fjárlagafrumvarpi 2018.

Enn bólar ekkert á efndum.

Nú er tími til kominn!